Tími ímynda og eftirlæsis

Greinar

Sumir bandarískir fræðimenn hafa lengi gert greinarmun á ólæsi, læsi og eftirlæsi. Fyrst í tímaröð er ólæsi, síðan kemur tímabil læsi og loks rekur lestina eftirlæsi, sem er nýlegt af nálinni. Hinir eftirlæsu eru þeir, sem eiga að hafa lært að lesa, en notfæra sér það ekki.

Tækninni hefur fleygt svo fram, að fólk getur lifað góðu lífi og jafnvel komizt áfram í heiminum án þess að þurfa að lesa og skrifa. Til dæmis er prentað mál ekki lengur aðgöngumiði að upplýsingum. Það breyttist fyrst með útvarpi og síðan einkum með sjónvarpi.

Breytingar af þessu tagi valda ýmsum vandamálum, sem hér er ekki rúm til að rekja. Eitt þeirra er myndin, sem fjarlægist raunveruleikann, er hún átti upphaflega að endurspegla, og verður að ímynd. Fólk horfir á ímynd aðstæðna og atburða og á ímynd fólks, persónu þess.

Þegar sjónvarp hóf göngu sína hér, komust helztu stjórnmálamenn landsins inn á gafl á heimilum fólks. Sumir þeirra risu við þetta og aðrir hnigu, allt eftir ímyndinni, sem þeir megnuðu að sýna á skjánum. Aðrir áttu í erfiðleikum, sem þeir smám saman sigruðust á.

Langt er í land, að Íslendingar nái tökum á umgengni við hina nýju tækni, svo sem sjónvarpið. Bandaríkja menn hafa búið við hana miklu lengur og miklu harkalegar en við. Samt hefur mikill hluti þeirra ekki enn lært að gera greinarmun á ímynd og raunveruleika.

Ýmsir illa hæfir og óhæfir menn hafa komizt langt í tilraunum til að ná völdum í Hvíta húsinu í Washington. Reagan Bandaríkjaforseti er skólabókardæmi um ímynd, sem geislar frá sér hlýju, karlmennsku og jafnvægi, en hefur að baki dapran raunveruleika getuleysis.

Frambjóðendur til forsetaembættis næsta kjörtímabils hafa risið á grundvelli ímyndar í sjónvarpi, en hafa síðan sumir hverjir hrapað til jarðar á grundvelli uppljóstrana í dagblöðum. Ef til vill er þar að koma í ljós merki þess, að ímyndir séu loksins á undanhaldi.

Athyglisvert er þó, að fleiri Bandaríkjamenn treysta enn upplýsingum sjónvarps betur en dagblaða. Hinn ímyndaði heimur á skjánum virðist fólki raunverulegur, eins og því finnst leikhús raunverulegt. Og fréttasjónvarp er einmitt leikhús eins og annað sjónvarp.

Fólk horfir á skjáinn og því finnst það sjá veruleikann, af því að fréttirnar virðast gerast á skjánum. Það gerir sér ekki grein fyrir, hvort fall verðbréfa í Wall Street er sambærilegt við hrunið á undan kreppunni miklu, þegar það horfir á leikþátt eftir Yngva Hrafn.

Í Bandaríkjunum hafa margir lengi haft afar arðbæra vinnu við að framleiða ímynd vöru, þjónustu, fyrirtækja, skemmtifólks, leikara og stjórnmálamanna. Hér á landi er þessi atvinnugrein að skjóta rótum. Við því er ekkert að segja ­ annað en að vekja athygli á því.

Um þetta gildir hið sama og um önnur neytendamál, að fólk verður að læra að umgangast sjónvarp og aðra framleiðendur ímynda af meiri varúð. Fólki er til dæmis skynsamlegt að hætta að ímynda sér, að fréttir í sjónvarpi séu áreiðanlegri en fréttir á prenti.

Sjónvarp er í eðli sínu fremur afþreying eða leikhús, en ekki fréttamiðill eins og dagblöð. Sjónvarpið er mikilvægur þáttur í breytingunum, sem bandarísku fræðimennirnir voru að hugsa um, þegar þeir fundu orðið “eftirlæsi” til að lýsa nýju menningarástandi.

Ef fólk nær áttum, er ástæða til að vona, að eftirlæsi verði hér ekki alls ráðandi og að ímyndir í leikhúsi sjónvarps muni ekki stjórna viðhorfum fólks til skaða.

Jónas Kristjánsson

DV