Fiskvinnsla er félagsmál

Greinar

Sjávarútvegsráðuneytið hyggst auka verndun láglaunastarfa í fiskvinnslu með því að auka skattlagningu hálaunastarfa í sjómennsku. Þessi lífskjarajöfnun niður á neðsta samnefnara felst í tvöföldun úr 10% í 20% á svokölluðum kvótaskatti á útfluttan ísfisk.

Þetta er hluti hinnar almennu, pólitísku hugsjónar Íslendinga að draga máttinn úr vaxtarbroddinum og hlúa að kalviðnum. Þessi hugsjón er rekin áfram af öllum stjórnmálaflokkunum og hefur náð fullkomnun í ríkisrekstri hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda.

Ríkiskerfið er smám saman að byrja að taka fiskvinnsluna upp á sína arma. 20% kvótaskatturinn er skref á þeirri leið, vegvísir á leið greinarinnar úr atvinnulífinu inn í eins konar félagsmálastofnun á borð við þá, sem skattgreiðendur þekkja í landbúnaði.

Miklu nær væri, að ríkið styddi fiskvinnsluna til sjálfshjálpar. Á vegum Rannsóknaráðs ríkisins hefur verið fundið, að unnt væri að spara milljarða í fiskvinnslu með 500­600 milljóna tæknivæðingu. Ríkið gæti hjálpað við að útvega lánsfé til að knýja þetta fram.

Ríkismat sjávarafurða hefur reynt, að fjórðungur frystihúsa notar gallað vatn eða óhæft til framleiðslunnar. Sveitarfélögin, sem einna hæst jarma um byggðastefnu, gætu lyft litla fingri til stuðnings fiskvinnslu sinni með því að útvega henni frambærilegt vatn.

Meirihluti þjóðarinnar telur enn, að fiskvinnsla auki verðmæti fisks. Fólk er næmt fyrir órökstuddum fullyrðingum um, að “fullvinna” eigi aflann hér heima og ekki selja útlendingum of mikið af “óunnum” fiski. Þess vegna er reynt að draga aflann inn í frystihúsin.

Samt er óunni fiskurinn, ísfiskurinn, verðmætasti fiskurinn. Hlutverk fiskvinnslunnar er raunar einkum að bjarga undan skemmdum þeim afla, sem ekki er hægt að selja sem verðmætan ísfisk. En þessi rök mega sín lítils gegn grónum trúarbrögðum meirihlutans.

Fiskvinnslan er orðin að hálfgerðri óperettu. Til hliðar á sviðinu syngur grátkór Verkamannasambandsins sorgarlög um láglaunastörfin í greininni. Í hinum kantinum eru umboðsmenn frystihúsanna í símanum til London að gabba saklausa útlendinga í vinnu til sín.

Því meira sem alvöruatvinnuvegi með hálaunafólki er refsað fyrir að sigla með ferskan fisk eða senda hann í gámum til útlanda, þeim mun meira fyllast frystihúsin af fiski, sem mannafla skortir til að bjarga undan skemmdum, vegna lágra launa og lélegrar tækni.

Ef við lifðum í alvöruþjóðfélagi, heimtaði fólk, að stjórnvöld notuðu sameiginlega sjóði okkar til að efla hálaunagreinar, svo sem tölvutækni, fiskveiðar, ísfiskútflutning og orkubúskap, svo og til að skapa nýjar, einkum á sviði alþjóðlegra viðskipta og fjármála.

Hér vilja menn hins vegar halda sem flestum á lága kaupinu í fiskvinnslu og flytja inn til viðbótar farandverkafólk frá útlöndum til þess að halda uppi sem mestum umsvifum í grein, er siglir í höfn hliðstæðrar félagsmálastofnunar og er í hefðbundnum landbúnaði.

Að baki fiskvinnslunnar eru sölusamtök, sem gegna sama hlutverki og Sambandið í landbúnaði. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda hafa misst spón úr aski til ísfiskútflutnings og eru að verja hagsmuni sína, svo sem eðlilegt er.

Ef þjóðin skildi hagsmuni sína, kæmust fiskvinnslan og sölusamtökin ekki upp með tilraunir sínar til að draga úr framtíðargrein hins arðsama ísfiskútflutnings.

Jónas Kristjánsson

DV