Frá Hunkubökkum í Skaftársveit um Eintúnaháls og Blágilsskála að Laka og Blæng.
Þetta er jeppaslóð, en reiðslóð er líka milli sömu staða. Ekki má vera með rekstur hjá Laka.
Svæðið er einstætt náttúruundur. Héðan rann mesta hraun jarðarinnar á sögulegum tíma, Skaftáreldahraun 1783, sem breytti loftslagi jarðarinnar um árabil. Víða var landauðn í kjölfarið, mannfellir og hungurdauði. Var í alvöru fjallað um, hvort rétt væri að flytja eftirlifandi Íslendinga á Jótlandsheiðar. Gígarnir eru um hundrað talsins, renna sums staðar saman, en annars staðar eru misjöfn bil milli þeirra. Gosefnin eru svört og rauð,en víða eru gígarnir þaktir gulum og hvítum grámosa, svo að litbrigðin eru einstök. Laki er 818 metra hár móbergshnúkur á miðri sprungu Lakagíga.
Förum frá Hunkubökkum. Leiðin fylgir jeppavegi inn í Laka. Fyrst förum við vestur í Hellisnes og síðan norður dalinn um Heiðarsel og á Túnheiði að hestagirðingunni við eyðibýlið Eintúnaháls. Þaðan norður um Hurðarbök að Geirlandsá, þar sem er Fagrifoss. Síðan norðaustur um Hattsker, síðan norður og norðvestur um Ámundarbotna. Við förum áfram norður Tjarnartanga, yfir Hellisá og um Galta að Varmárfelli vestanverðu. Förum norður fyrir fellið og höldum áfram norður milli Blængs og Laka og endum fyrir norðan Blæng.
44,2 km
Skaftafellssýslur
Skálar:
Eintúnaháls: N63 50.269 W18 13.309. Hestagirðing
Jeppafært
Nálægar leiðir: Lakagígar, Leiðólfsfell, Holtsdalur, Flosavegur.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort