Ráðizt að Tjörn og Kvos

Greinar

Mikill meirihluti Reykvíkinga og einnig Íslendinga er andvígur fyrirhuguðu ráðhúsi í norðvesturhorni Tjarnarinnar. Skoðanakönnun DV hefur leitt í ljós, að borgarstjórn Reykjavíkur er á hálum ís á Tjörninni, sem á sér fleiri vini en steypusinnar hafa gert ráð fyrir.

Ráðhúsið í Tjörninni er aðeins eitt dæmið af mörgum um eyðingarafl hins opinbera, sem ræðst að Tjörninni og Kvosinni úr ýmsum áttum. Til dæmis eru rökstuddar grunsemdir um, að nýja uppfyllingin við Fríkirkjuveg sé lævís undanfari breikkunar bílaumferðar-holræsis.

Tímabært er, að yfirvöld skipulags Reykjavíkur láti almennt af smíði nýs og stórkarlalegs miðbæjar ofan í hinum gamla og látlausa. Almennt á að hætta að rífa gömul hús og fara fremur að láta nýleg hús víkja, ef alvarlegir árekstrar verða milli gamals og nýs tíma.

Annað fyrirhugað hús er enn óvinsælla en ráðhúsið. Það er steindauði alþingiskassinn, sem stjórnmálaflokkarnir hyggjast reisa alla leið frá ráðhúsinu fyrirhugaða og að Austurvelli, teiknaður í óvenjulega víðáttumiklum bankakassastíl, sem við höfum miklu meira en nóg af.

Ekki er auðvelt að sporna við framkvæmdum af þessu tagi, nema benda jafnframt á, hvernig lina megi húsnæðisskortinn, án þess að reisa þurfi stóra og freka steypukassa á viðkvæmum og fínlegum stöðum. Það er raunar auðveldara en ætla mætti við allra fyrstu sýn.

Hafa þarf í huga, að suma starfsemi ber að laða að miðbæ og ýta annarri frá honum. Glæða þarf verzlanir og aðra afgreiðslu fyrir almenning, en losna við umfangsmiklar skrifstofur, sem ekki eru í miklu sambandi við fólkið á götunni, til dæmis sumar borgarskrifstofur.

Meðal kontóra, sem hrekja mætti úr Kvosinni, eru þeir hlutar bankanna, sem ekki eiga bein viðskipti við fólkið af götunni. Ennfremur forstjóraskrifstofur og flestar aðrar skrifstofur stofnana á borð við Póst og síma og heilar stofnanir á borð við Reiknistofu bankanna.

Hin upprunalegu hús Landsbankans og Útvegsbankans gætu hvort um sig hentað vel sem ráðhús. Því miður yrði dýrt að fjarlægja hinar afkáralegu viðbætur þessara húsa, sem yrði að sjálfsögðu nauðsynlegt, ef auka ætti virðingu þeirra sem ráðhúsa eða Hæstaréttarhúsa.

En önnur hús eru hentugri. Nýja Seðlabankahúsið hefur það umfram önnur ný hús að vera ekki ljótt og hentar því prýðilega sem ráðhús við höfnina. Starf Seðlabanka, Þjóðhagsstofnunar og Reiknistofunnar getur flutzt brott og raunar hvert á land sem er.

Annað hús, sem kemur ekki síður til greina, er gamla Landsbókasafnshúsið, sem er með fegurri húsum miðbæjarins. Eftir nokkur ár flytzt safnið í Þjóðarbókhlöðuna. Þá er kjörið, að borgin kaupi húsið fyrir ráðhús. Sá hængur er þó á, að húsið hentar líka Hæstarétti.

Þriðja húsið er Hótel Borg, sem ber sig tígulega við hefðartorg borgarinnar og er hannað í eðlilegu framhaldi borgarskrifstofanna í Pósthússtræti. En sárt væri að missa eina hótelið í Kvosinni, því að evrópsk hefð er fyrir grónum virðingarhótelum við aðaltorg.

Hótel Borg gæti raunar líka verið útibú Alþingis. En svo vel vill til, að andspænis við Austurvöll standa ein mitt hinir dauðu og gestasnauðu kastalar Pósts og síma, kjörnir fyrir kontóra þingmanna og starfsmanna Alþingis, svo að forðast megi nýjan alþingiskassa.

Af þessu má sjá, að nægir og góðir kostir eru aðrir en þeir að reisa fyrirhugað ráðhús í Tjörninni og fyrirhugaðan alþingiskassa ofan í stóran hluta Kvosarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV