Bænarskrár-andrúmsloft

Greinar

Þegar 32 þingmenn senda bænarskrá til fiskveiðinefndar, sem á að gefa Alþingi góð ráð í kvótamálum, er ljóst, að svo mikið er orðið valdaafsal löggjafans, að meirihluti þingmanna áttar sig ekki lengur á, að þeir fara enn formlega séð með löggjafarvaldið í landinu.

Sjávarútvegurinn er bara eitt, en gott dæmi um reglugerðabáknið, sem er að myndast hér á landi. Fyrir löngu var varpað fyrir róða náttúrlegri stjórn framboðs og eftirspurnar í þessari atvinnugrein. Og upp á síðkastið hafa heimildir og reglugerðir tekið við af lögum.

Nú orðið hefur einn lítt öfundsverður ráðherra lagaheimildir til að ákveða örlög útgerðar smábáta og frystitogara, staðsetningu rækjuvinnslu og framtíð sjávarútvegs á suðvesturhorninu, svo að dæmi séu nefnd. Sér til aðstoðar lætur hann semja mýgrút reglugerða.

Því flóknari sem málin eru, þeim mun þyngra er að stjórna þeim með þessum hætti. Enginn ráðherra, nefnd og þingmannahópur getur séð fyrir hinar margvíslegu óbeinu afleiðingar út um allar trissur af tiltölulega góðviljuðum tilraunum til að koma stjórn á sjávarútveg.

Hart er deilt um kvótakerfið þessa dagana. Sumir finna því allt til foráttu og aðrir telja það allra meina bót. Verst er, að hvorir tveggja hafa nokkuð til síns máls. Kvótakerfið hefur sumpart góð áhrif og sumpart vond. En einkum hefur það þó ófyrirséð áhrif.

Mest er deilt um, hverjum beri kvótinn. Margir harma, að hann fylgir skipum og þar með útgerðinni beint og sjómönnum óbeint, en ekki fiskvinnslu eða sveitarfélögum. Eftir á að hyggja er orðið ljóst, að handhöfum kvótans hafa verið afhent gífurleg verðmæti.

Svo er nú komið, að söluverð notaðra fiskiskipa endurspeglar fyrst og fremst kvótann, sem fylgir í kaupbæti. Ennfremur sogast skip af suðvesturhorninu til annarra landshluta vegna mismununar í kvóta, sem kerfið hefur komið á fót til að efla jafnvægi í byggð landsins.

Til er leið, sem getur grisjað myrkvið laga, heimilda og reglugerða og hleypt inn birtu hinnar gömlu sjálfvirkni markaðsins, sem við höfum í ár séð ná árangri í hinum nýju fiskmörkuðum. Æ fleiri benda á þessa leið, sem felst í, að kvótinn verði seldur hæstbjóðandi.

Út af fyrir sig varðar ekki mestu, hvort kvótinn er gefinn eða seldur. Aðalatriðið er, að hann geti gengið kaupum og sölum, svo að hann finni verðgildi sitt á sjálfvirkan hátt. Það leiðir til, að fiskveiðin færist á hendur þeirra sjómanna og skipstjóra, sem bezt kunna til verka.

Þorkell Helgason prófessor lagði nýlega til, að 20% kvótans yrðu seld árlega í fimm ár. Hér í blaðinu bar Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður upp, að kvótinn yrði seldur í árlegum 10­20% áföngum. Báðir eru að reyna að vísa á milda leið til markaðskerfis.

Gallinn er, að hvorki fólk né ráðamenn skilja, hvílíkt þjóðfélagslegt réttlæti felst í frjálsri kvótaverzlun. Þess vegna mun verða reynt í lögum, heimildum og reglugerðum að setja markaðnum þröngar skorður með alls konar parta-réttlæti, það er að segja sérhagsmunum.

Í rauninni er þjóðin ekki næm fyrir skynsemi í skipulagi sjávarútvegs. Sem dæmi má nefna, að útvegsmenn samþykktu nýlega að hafna frjálsu fiskverði, bara til að spara sér óþægindi af viðræðum við sjómenn. Undir niðri vildu útvegsmenn helzt friðsælt ríkisverðlag.

Í þessu andrúmslofti er ráðherra gerður að slíkum einræðisherra, að þingmenn hafa gleymt löggjafarvaldi sínu og eru farnir að senda bænarskrár að gömlum sið.

Jónas Kristjánsson

DV