Laxárdalsvað

Lítið notuð reiðslóð yfir í Gnúpverjahrepp, milli Kaldbaks og Mástungu.

Á Kaldbak er gistihólf, traust skiptigerði og hnakkageymsla fyrir ferðahesta. Þessi leið er rúmum kílómetra styttri en leiðin um Kaldbaksvað, en heggur nær túnum bænda á Þverspyrnu og í Laxárdal.

Förum frá Kaldbak með þjóðvegi 345 suður úr Kaldbakslandi um hlið á girðingu. Við Húsafell fylgjum við ekki þjóðveginum, sem beygir upp hálsinn, heldur höldum áfram með skurði suður að hliði á girðingu um Þverspyrnu. Förum þar inn, milli túna og síðan eftir jeppavegi upp á þjóðveg 345. Þar förum við til austurs stutta leið, förum yfir veginn og að girðingarhorni. Förum þar um hlið og inn á dráttarvélaslóð um Folaldahlíð suður og niður að Stóru-Laxá. Bratt er niður að ánni. Ríðum yfir ána á Laxárdalsvaði og niður hana 100 metra unz við komum að slóð, sem liggur bratt upp úr ánni. Hún leiðir okkur í hlað í Laxárdal. Þar tekur við þjóðvegur 329 og fylgjum við honum til suðurs framhjá Skáldabúðum að Minni-Mástungu í Gnúpverjahreppi.

15,1 km
Árnessýsla

Nálægir ferlar: Kaldbakur, Fagridalur, Kaldbaksland, Fjallmannaleið, Laxárgljúfur, Kaldbaksvað, Hallarmúli.
Nálægar leiðir: Stóra-Laxá, Sólheimar, Hildarfjall, Skáldabúðir, Illaver, Fossnes, Hamarsheiði, Þjórsárholt.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson