Matthías Á. Mathiesen samgönguráðherra hefur knúið Póst- og símamálastofnunina gegn vilja hennar til að hefja undirbúning að útgáfu sundurliðaðra símareikninga. Þar með er í augsýn, að gamalt baráttumál DV gegn kerfiskörlum fái farsæla og sjálfsagða niðurstöðu.
DV hefur margsinnis bent á, að í Bandaríkjunum fá símnotendur sundurliðaða reikninga, þar sem fram kemur, hvenær hringt er í hvaða númer, hversu lengi er talað og hve mikið hvert símtal kostar. Símnotendur fá reikninga, sem eru líkir venjulegum reikningum.
Póst- og símamálastofnunin hefur ætíð fjandskapazt við hugmyndir um, að hún gefi út reikninga með sama hætti og aðrir seljendur vöru og þjónustu. Hún hefur á sínum snærum sérstakan blaðafulltrúa, sem hefur hamazt gegn tilraunum til að hafa vit fyrir stofnuninni.
Hugarfarið hjá Póst- og símamálastofnuninni hefur verið, að hún viti bezt, hvað sé símnotendum fyrir beztu. Sundurliðun símareikninga kosti peninga, sem notendur verði að borga og “þeir hefðu áreiðanlega ekki verið tilbúnir til að taka þann kostnað á sig”.
Ekki ætti að vera á verksviði embættismanna að ákveða, hvað fólk vill fá og borga og hvað ekki. Í þess stað hefði Póst- og símamálastofnunin fyrir löngu átt að vera búin að gefa almenningi kost á að vita, hvað hann er að borga, þegar hinir fjallháu reikningar birtast.
Frægt var, þegar 90 þúsund króna reikningur kom í Stykkishólmi á síma, er hafði verið lokaður allt greiðslutímabilið. Póst- og símamálastjórnin gafst ekki upp í málinu, fyrr en sýslumaður var kominn í það. En ekki eru allir svo heppnir að geta sannað símabindindi sitt.
Enn eru símnotendur yfirleitt varnarlausir gegn ofbeldi Póst- og símamálastofnunarinnar. Einskisnýtt er að segja, að reikningur hljóti að vera rangur, því að síminn hafi ekki verið notaður eins mikið og gjaldið sýni. Þú færð bara fógeta og kostnað í hausinn.
“…stjóri hjá Pósti og síma telur þarna ekki um stórt mál að ræða. Þegar viðkomandi Grafarvogsbúi fær sinn síma tengdan, hvenær sem það verður, verði flutningsgjaldið á síma hans einfaldlega lækkað um þá upphæð, sem hann verður þá búinn að ofgreiða í afnotagjöldum.”
Ofangreind tilvitnun í viðbrögð stofnunarinnar við kvörtunum um gjaldtöku af síma, sem ekki var til, er dæmigerð um ástandið á þeim bæ. Svo að segja úr hverju orði drýpur hugarfar, sem aðeins getur orðið til við langvinna ræktun í opinberri einokunarstofnun.
Síðan ráðherra setti stofnunina upp við vegg hefur hún skyndilega uppgötvað, að stafrænu símstöðvarnar geri sundurliðun ódýrari en áður hefði orðið. Hið rétta mun vera, að í þessum nýju stöðvum þurfi sundurliðun lítið annað að kosta en aukinn pappír í reikninga.
Vegna þessarar uppgötvunar er þess skammt að bíða, að 25 þúsund notendur fái sundurliðaða reikninga frá Póst- og símamálastofnuninni. Það eru þeir, sem hafa símanúmer, er byrja á tölustafnum 6. Þetta er mikilvægt skref að sæmilegum friði milli fólks og stofnunar.
Þegar sumir eru farnir að fá sundurliðaða reikninga frá þessari stofnun eins og venjulegt er í viðskiptum með vöru og þjónustu, getur hún ekki lengur staðið gegn því, að sama þjónusta verði síðan veitt hinum, sem ekki eru tengdir hinum nýju, stafrænu símstöðvum.
Knésetning Póst- og símamálastofnunarinnar í máli þessu er tímamótaviðburður, sem felur í sér einn af markverðustu sigrum almennings á þessum áratug.
Jónas Kristjánsson
DV