Haft vit fyrir öðrum

Greinar

Stuðningsmenn og andstæðingar bjórsins hafa hvorir tveggja rétt fyrir sér, þegar þeir fjalla um áhrif drykkjarins. Bjórinn hefur sínar björtu hliðar og aðrar skuggahliðar. Síðan fer eftir sjónarhóli hvers og eins, hvaða hlið hann lætur ráða afstöðu sinni til bjórfrumvarpsins.

Bjór reynist flestum góður vinur. Þeir geta oftast notað hann í hófi, sér og vinum sínum til ánægju. Þeir fara sjaldan yfir markið, enda er bjór afar vægur vímugjafi í samanburði við áfengisflokka, sem leyfðir eru og vinsælastir eru hér á landi, brennda drykki af ýmsu tagi.

Þar á ofan eru vaxandi líkur á, að bjór í miklu hófi sé fremur heilsusamlegur. Rannsóknir benda til, að lítið áfengismagn hafi góð áhrif á æðakerfið og dragi úr líkum á hjartasjúkdómum. Athuga ber þó, að fljótlega fer áfengismagn yfir þessi mörk hagstæðra heilsuáhrifa.

Um leið er bjór hættulegur eins og annað áfengi. Fjölmennur minnihluti fólks er þannig gert frá náttúrunnar hendi, að líkami þess myndar fíkn við neyzlu bjórs eins og annars áfengis. Efnahvörf í lifur og heila eru önnur og skaðlegri hjá þessu fólki en venjulegu fólki.

Þetta fólk þjáist af ættgengum sjúkdómi, sem hefur göngu sína með uppsöfnun acetaldehýðs í lifrinni og endar svo oft með líkamlegum, sálrænum, félagslegum og andlegum ósköpum, er ekki vinnst bugur á nema með algeru hvarfi frá hvers konar neyzlu áfengis.

Í enskumælandi löndum er sagt, að 10% fólks sé næmt fyrir áfengissýki. Hér hafa verið nefndar hærri tölur, frá 15% upp í 20%. Altjend er ljóst, að til er fjölmennur minnihluti, sem ekki má drekka áfengi án þess að koma af stað skaðlegum efnahvörfum í skrokknum.

Af þessu vaknar spurningin um, hvort rétt sé að neita meirihlutanum um hinn hjartastyrkjandi gleðigjafa til þess að forða minnihlutanum frá áfengisbölinu. Séu menn þessarar skoðunar, er rökrétt, að þeir fylgi algeru áfengisbanni frekar en banni á veikum bjór eingöngu.

Þeir verða þá einnig að hafa í huga, að vín og bjór hafa árþúsunda hefð að baki í samfélagi manna. Áfengir drykkir eru grunnmúraðir í hefðum þjóða. Dýrkun á Díonýsosi er með fjölmennari trúarbrögðum hins vestræna heims, studd ótal lofgerðum í bókmenntum.

Auðveldara er að berjast gegn vímugjöfum, sem ekki hafa þennan uppsafnaða mátt úr fortíðinni. Fíkniefnin eru tiltölulega ný af nálinni utan afmarkaðra hópa og sama er að segja um róandi lyf og svefnlyf af hvers konar tagi. Allt eru þetta vanabindandi vímuefni.

Séu menn í raun þeirrar skoðunar, að rétt sé að hafa vit fyrir mönnum og meina þeim, sem vilja, að komast í bjór, nema í útlöndum, fríhöfninni á Keflavíkurvelli og á svarta markaðnum, væri æskilegt, að þeir könnuðu hug sinn til annarra hættulegra efna en bjórsins eins.

Tóbak drepur áreiðanlega fleiri en áfengið gerir. Hvernig væri að banna sígarettur algerlega og heimila sölu vindla í sérstökum ríkisverzlunum. Er ekki rétt að hafa með afli vit fyrir fólki á þessum sviðum á sama hátt og reynt er í áfengi og sérstaklega í bjór.

Sykur er viðurkenndur manndrápari. Hvernig væri, að banna sykurinnflutning eða að minnsta kosti skattleggja hann margfalt og banna sölu hans annars staðar en í sérstökum ríkisverzlunum Og hvað um háa skatta, ríkisverzlanir eða algert bann við smjöri og lambakjöti.

Sumt ætti að mega leyfa fólki að velja sjálft, án þess að hafa með handafli vit fyrir því. Sem þáttur í styrkleikalitrófi áfengis ætti bjórinn að fylgja frjálsum vilja.

Jónas Kristjánsson

DV