Leiðaskarð

Frá þjóðvegi 1 í Jökulkinn vestan Svartfells og norðan Nips um Möðrudal og Brattafjallgarð að Brú við Jökulsá á Dal.

Gömul þjóðleið milli Brúar á Jökuldal og Möðrudals á Efra-Fjalli. Stundum er leiðin kölluð Ytri-Hestleið til aðgreiningar frá Fremri-Hestleið um Byttuskarð. Sveinn Pálsson lýsir leiðinni um Hvannárgil svona árið 1794: “Vestan til í fjallgörðum þessum liggur leiðin gegnum svo þröngan klofa, er Hvannárgil nefnist, að klyfjahestar geta með naumindum smogið gegnum. Hlíðarnar eru úr eintómum litlum stuðlabergssúlum, er liggja í allar áttir, mest megnis samfléttaðar, en samt eins og þær séu límdar hver við aðra … Hér og hvar grillir í hella og hvelfingar niðri í þessu hálfdimma gili.” Vörðubrot sjást enn á leiðinni, til dæmis suðvestan undir Hestleiðarkolli.

Byrjum við þjóðveg 1 í Jökulkinn vestan Sandfells og norðan Nips. Förum suðvestur með fjöllunum, austan við Nip og Dyngju, um Víðihól og Sjónarhól á þjóðveg 901 við Sauðá. Fylgjum veginum í Möðrudal. Við förum áfram suður að Kjólstöðum og þaðan suðaustur að Slórfelli. Förum þar þvert yfir þjóðveg F905 til Arnardals. Förum suður fyrir Vatnsstæðishóla og þaðan suðaustur um Hvannárgil, milli Brattafjallgarðs að norðan og Mynnisfjallgarðs að sunnan. Síðan í 780 metra hæð, um Fúlukinn og Leiðarhöfða við Sigurðaröldu. Áfram suðaustur í Leiðaskarð og niður af fjallgarðinum norðan við Austari-Þríhyrningskróka. Áfram suðaustur á þjóðveg 907 um Jökuldalsheiði. Fylgjum þeirri leið til suðurs að Brú við Jökulsá á Dal.

34,5 km
Austfirðir

Nálægir ferlar: Grágæsadalur, Sænautasel.
Nálægar leiðir: Byttuskarð, Sótaskarð, Gestreiður, Miðgötumúli, Hvannstóðsfjöll, Kárahnjúkar, Aðalbólsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort