Kosið í vor

Greinar

Þegar samstarf í ríkisstjórn er gott, ganga ráðherrar og þingmenn stjórnarflokka úr vegi til að sætta sjónarmið. Þegar feigð sækir að slíku samstarfi, ganga þeir hins vegar úr vegi til að rækta ágreining, svo sem verið hefur frá upphafi ferils núverandi ríkisstjórnar.

Til að finna dæmi um sæmileg heilindi í stjórnarsamstarfi þarf ekki að leita lengra en til síðustu ríkisstjórnar á undan þessari, til yngstu helmingaskiptastjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokka. Valdamenn sátu á friðarstóli í þeirri ríkisstjórn til loka kjörtímabilsins.

Nú er hins vegar allt í hers höndum. Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna vinna ekki saman að niðurstöðu mála, heldur finna sér til ágreinings hvert tilefni, sem gefst. Þeir og flokkar þeirra eru að reyna að ná góðri taflstöðu fyrir næstu kosningar.

Slíkar ríkisstjórnir springa yfirleitt fyrir tímann. Þátttakendur þeirra fjalla ekki um mál eins og þau séu verkefni, sem gefa þurfi sér tíma til að leysa. Þeir hafa meiri áhuga á, hvernig þessi sömu mál líti út frá sjónarhóli kjósenda, þegar til mjög skamms tíma er litið.

Ýmis deilumál benda til, að forustumenn stjórnarflokkanna séu byrjaðir að undirbúa baráttu fyrir kosningar að vori. Þeir hafa magnað með sér ágreining um mörg stærstu mál dagsins, fjárlög, matarskatt, húsnæðislánakerfi, útgerðarkvóta og landbúnaðarstuðning.

Í vaxandi mæli er talað um, að frumvörp um þessi mál séu eins konar einkafrumvörp eins ráðherra. Einstakir þingmenn, jafnvel ráðherrar og heilir stjórnarflokkar áskilja sér rétt til að vera meira eða minna andvígir ýmsum eða flestum atriðum frumvarpa.

Í sumum tilvikum er líklegt, að sérstaðan sé ekki djúpstæð, heldur framleiðsla á eins konar skiptimynt til að beita gegn annarri sérstöðu. Þá er líklegt, að niðurstaðan af hvoru tveggja verði engin. Það er einmitt markmið síðari sérstöðunnar að eyða hinni fyrri.

Andstöðu alþýðuflokksmanna við kvótafrumvarp framsóknarráðherra er að nokkru leyti beint gegn andstöðu framsóknarmanna við húsnæðisfrumvarp alþýðuflokksráðherra. Andstaðan er sumpart uppgerð, þótt hún byggist á frambærilegum efnisrökum.

Ágreiningsatriði stjórnarflokkanna verða þó engan veginn skýrð með þessum hætti einum. Meginástæða þeirra er, að flokkarnir gera ráð fyrir kosningum í vor og eru að reyna að skapa sjálfum sér ímynd, sem sé önnur og betri en ímynd ríkisstjórnarinnar í heild.

Framsóknarflokkurinn nýtur mikils fylgis í skoðanakönnunum. Forustumenn hans geta vel hugsað sér að ná fylgisaukningunni í hús í kosningum sem fyrst. Auk þess telja þeir tímabært, að Steingrímur Hermannsson leysi Þorstein Pálsson af hólmi í stjórnarforsæti.

Stjórnarandstaða Framsóknarflokksins innan ríkisstjórnarinnar beinist einkum gegn ráðherrum Alþýðuflokksins, er fjalla um fjármál ríkisins og húsnæðismál. Með gagnsókn Alþýðuflokksins í sjávarútvegsmálum hefur spennan í stjórninni magnazt um allan helming.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hægar um sig en hinir flokkarnir, en stundar þó yfirboð í stuðningi við landbúnað. Í skoðanakönnunum hefur flokkurinn ekki náð til baka neinum umtalsverðum hluta af fylgi Borgaraflokksins og er afar illa í kosningastakk búinn.

Ríkisstjórn er bráðfeig, þegar gagnkvæmt tillitsleysi mótar afstöðu ráðherra og stjórnarliða, svo sem nú er. Brautin liggur til kosninga, er verða líklega í vor.

Jónas Kristjánsson

DV