Mandarín

Veitingar

Dýrir Kínastaðir á Íslandi

Mandarín í Tryggvagötu er bezta kínverska veitingahúsið í landinu og jafnframt hið langdýrasta. Við lá, að ég svitnaði, þegar ég sá verðlag staðarins í fyrsta skipti. Að borða þar kostar jafnmikið og í hinum dýru veitingasölum landsins.

Svo dýrir eru sjaldan kínverskir veitingastaðir í öðrum löndum. Þeir hlaða sér venjulega í neðri enda verðsviðsins. Hér á landi eru slík matsöluhús hins vegar frá miðjum verðflokki og uppúr. Það er eins og þau séu ekki rekin fyrir kunnuga, heldur fyrir fólk, sem klæðir sig upp til að borða kínverskan mat einu sinni á ári eða sjaldnar.

Meðan innlendir öndvegisstaðir á borð við Úlfar og Ljón, Laugaás og Pottinn og pönnuna eru í lægsta verðflokki, eru Kínahofið og Sjanghæ í miðflokki og Mandarín í hæsta verðflokki. Þrátt fyrir útbreiðslu Kínataða hér á landi vantar enn af því tagi fjölskyldustað, sem fólk hefur efni á að sækja án sérstaks tilefnis. Þannig er kínverski akurinn að mestu ósáinn enn í veitingamennsku Íslands.

Miðjuverð súpu og aðalréttar í hádeginu í Mandarín er 1.051 króna. Að kvöldlagi kostar þriggja rétta málsverður með tei en án víns 2.008 krónur. Síðarnefnda talan er þröskuldurinn, sem viðskiptavinir að kvöldlagi verða að ákveða, hvort þeir vilji stíga yfir.

Stuðlabergið stúkað frá

Mandarín er flutt í salarkynnin, þar sem áður var til húsa veitingastaðurinn Hellirinn. Hinar miklu og lítt smekkvísu stuðlabergsskreytingar í anddyri, veggjum og súlum hafa verið mildaðar með stórum, kínverskum skermum, er skyggja á útsýni og hluta salinn niður í þægileg skot, þar á meðal bar í einu horninu. Ýmislegu, en ekki ofhlöðnu Kínaskrauti hefur verið komið fyrir, svo sem pappírslugtum í lofti, veggplötum, gluggaspjöldum og renningi yfir bar.

Rautt áklæði er á stólum og rauðir undirdúkar á borðum, svo og rauðar tauþurrkur og kertaljós á kvöldin. Í hádeginu eru notaðar hvítar pappírsþurrkur. Borðbúnaður er austurlenzkur, þar á meðal prjónar fyrir þá, sem vilja.

Þjónustan er austræn að gæðum, þótt hún sé vestræn. Starfsliðið er klætt í kínverskt silki, flytur gestum strax vatn í glös, sér um, að hitaplötur komi á borð eftir þörfum, og ber yfirleitt af því, sem ég hef séð í austrænum veitingahúsum á Reykjavíkursvæðinu. Í eitt skiptið kom hinn austurlenzki matsveinn meira að segja að borðinu til að kynna sér óskir um bragðstyrk.

Víða leitað fanga

Matseðillinn í Mandarín er langur eins og algengt er hjá slíkum stöðum. Hann er einnig óvenju fjölbreyttur, enda er staðurinn ekki kallaður “kínverskur”, heldur “austurlenzkur”. Boðið er upp á matreiðsluaðferðir frá Sikkúan og Mongólíu, Beijing og Sjanghæ, en ekki aðallega frá Kanton og Hong Kong, sem algengast er.

Eggjadropasúpan, sem var súpa dagsins í hádeginu einn daginn, reyndist vera góð súpa, mikil að magni og fela í sér mikið af smásaxaðri svínapöru og dálítið af blönduðu grænmeti úr frysti. Rækjusúpa með skemmtilega stökkum, kínverskum sveppum, sem brustu undir tönn, var enn betri og bjó yfir miklu af rækjum, tær og bragðmikil. Smokkfisksúpa var einnig góð, mátulega sterk, dálítið sæt, með hæfilega stinnum smokkfisklengjum, eggjum og sveppum.

Konan frá Sjanghæ er nafn á óvenjulegum, en bragðlitlum forrétti, þar sem eggjadeigi var vafið í fimm fingra formi yfir smásaxað svínakjöt. Lumpia er nafn á litlum vorrúllum, sem reyndust svipaðar öðrum, sem hér hafa verið á boðstólum. Þessar voru bornar fram með kryddlegnu hrásalati og súrsætri sósu, er var ekki of sæt.

Steiktur fiskur með ananas og framandlegu grænmeti hafði lítið fiskbragð, en var góður sem réttur, snarpheitur og í fylgd með mildri sósu. Súrsætur kjúklingur var mjög góður, þótt kjötið væri mjög kryddlegið og bragðlítið, næstbezti rétturinn, sem prófaður var.

Sósa keisaraynjunnar

Lambakjöt að hætti Sikkúan-búa var afar meyrt og gott, hæfilega kryddað. Gengis Khan lambakjöt á teini var einnig meyrt og alls ekki bragðsterkt, þótt varað væri við slíku á matseðli, viðarkolalegt á bragðið. Snöggsteikt nautakjöt var sagt borið fram með sojabaunum, en kom með grænni og rauðri papriku, snarpheitt, en hálfseigt og var sízti rétturinn. Bezti rétturinn var hins vegar steikt önd í svokallaðri sósu keisaraynjunnar frá Kína, áberandi bragðsterk og afar meyr.

Grænt jasmin-te er drukkið með matnum, innifalið í verðinu í hádeginu og á heilar 110 krónur að kvöldlagi. Vínlistinn er ómerkilegur, en býður þó Chateau Fontareche, Marqués de Riscal, Gewürztraminer og Rosenhang.

Jónas Kristjánsson

Hádegisseðillinn
360 Súpa dagsins
495 Peking vorrúlla með salati, sveppum og hrísgrjónum
450 Steikt hrísgrjón með eggjum, kjúklingi og rækjum
420 Gufusoðið, blandað grænmeti með ostrusósu
510 Steikt rauðspretta í himneskri sósu
525 Fiskur með bambusskotum og sveppum
510 Snöggsteiktur smokkfiskur með grænmeti
585 Súrsætar rækjur
650 Gengis Khan kjúklingur á teini með fersku grænmeti
690 Snöggsteikt svínakjöt með sveppum og eggi
780 Steikt svínakjöt í raspi með fersku grænmeti
750 Lambakjöt að hætti Sikkúan-búa
780 Súrsætt svínakjöt
810 Snöggsteikt nautakjöt með tómötum

DV