Hollt og ódýrt hækkar

Greinar

Ekkert fúsk er í frumvörpum ríkisstjórnarinnar til öflunar aukinna ríkistekna. Sjaldan hefur sézt jafn nakin og beinskeytt atlaga sérhagsmunahópa að hagsmunum almennings. Ríkisstjórnin er að afla sér milljarða frá almenningi til að leggja í hefðbundinn landbúnað.

Eins og jafnan áður er árásin í formi einföldunar og hagræðingar á tekjuöflunarkerfi ríkisins. Að gamalli venju telja ráðamenn sig þurfa að einfalda þetta kerfi og hagræða því, af því að þeir sjá í uppstokkuninni greiða leið til að ná auknum tekjum til gæludýra sinna.

Í fyrsta sinn breiðir ríkisstjórn ekki af alúð yfir staðreyndina. Á blaðamannafundi sagði fjármálaráðherra næstum berum orðum, að ein aðalskýring aðgerðanna væri, að afla þurfi meira en milljarðs til að unnt sé að greiða niður kjöt og mjólkurvörur í auknum mæli.

Stjórnin hyggst hækka verð á fiski, brauði, ávöxtum og grænmeti um hvorki meira né minna en heilan fjórðung. Þessar vörur eru bezta hollustufæðan á boðstólum: viðurkennd vörn við menningarsjúkdómum, sem meðal annars stafa af ofáti á feitu kjöti og mjólkurvörum.

Um leið eru í þessum flokki einmitt vörurnar, sem almenningur hefur efni á að kaupa. Þetta kemur þyngst við fólkið, sem kaupir í matinn ódýran fisk, en ekki kjöt: notar mikið af hollustubrauði og þá með ódýru viðbiti, en ekki því smjöri, sem dýrast er í heiminum.

Auknar niðurgreiðslur á dilkakjöti gagna lítt fólki, sem telur hæfa pyngju sinni að hafa fisk fimm daga í viku. Auknar niðurgreiðslur á smjöri og osti gagna lítt fólki, sem telur fé sínu betur varið í meira brauð og smjörlíki. Þetta eru niðurgreiðslur í þágu vel stæðra.

Allt stafar þetta af, að hinn hefðbundni landbúnaður hefur samið við sjálfan sig, það er að segja við landbúnaðarráðherra, um, að ríkið kaupi í raun næstum alla framleiðsluna. Til að koma offramleiðslunni í lóg telur ríkið sig þurfa að skekkja verðlagið í landinu.

Fróðlegt er, að fjármálaráðherrann, sem býr til umfangsmiklar tilfæringar á tekjuaukningarkerfinu til að þjónusta sérhagsmuni hins hefðbundna landbúnaðar, kemur frá Alþýðuflokki, sem nýlega er búinn að sættast við Framsóknarflokk um, hvað gæludýrið skuli fá.

Ekki er síður athyglisvert, að samkomulag þetta strandaði á yfirboði Sjálfstæðisflokks, sem allur þingflokkur hans stóð að. Flokkurinn heimtaði enn meiri þjónustu við sérhagsmunina. Yfirboðið setti af stað skriðu, sem endaði í skattahækkun síðustu helgar.

Þetta ættu í huga að hafa þeir, sem hneigjast til að kenna Framsóknarflokki um gælurnar við hinn hefðbundna landbúnað og til að sýkna um leið aðra flokka. Hinir stjórnarflokkarnir bera ekki minni ábyrgð á gæludýrinu, svo sem nú hefur rækilega komið í ljós.

Ennfremur ættu kjósendur einnig að minnast þess, að föst venja hefur verið, að flokkarnir, sem nú skipa stjórnarandstöðu, yfirbjóði Framsóknarflokk í dálæti á sérhagsmunum hins hefðbundna landbúnaðar. Í raun vinna nærri allir flokkar gegn almannahagsmunum.

Hér hefur verið gefin rétt og köld mynd af skattahækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Myndin stingur að sjálfsögðu í stúf við fleðulætin, sem einkenndu fréttaflutning ríkisfjölmiðla um helgina, einkum spariviðtöl þeirra við ráðherra, er sýndu rammfalska ímynd.

Rétt er orðað, að ekkert fúsk er í skattheimtunni. Ríkisstjórnin siglir þöndum seglum í þjónustu við sérhagsmuni á kostnað hagsmuna og hollustu almennings.

Jónas Kristjánsson

DV