Lítill árangur toppfundar

Greinar

Þegar Gorbatsjovs-æði fréttaleikhúsanna í sjónvarpi er að mestu runnið af fólki, er tímabært að vekja athygli á, að takmarkaður árangur náðist á toppfundinum í Washington. Ekki rættust þar vonir um víðtækara samkomulag en það, sem fyrirfram átti að skrifa undir.

Samkomulagið á fundinum um afnám skamm- og meðaldrægra kjarnorkuflauga er til dæmis eitt sér ekki eins mikilvægt og samningur, sem undirritaður var í september um stofnun gagnkvæmra öryggis- og aðvörunarstofnana í höfuðborgum heimsveldanna tveggja.

Fækkun kjarnorkuflauga veitir takmarkað öryggi, ef samt er eftir of mikið af kjarnorkuflaugum og -oddum. Venjulegt fólk hefur ekki mikil not af að vera aðeins drepið áttfalt, en ekki tífalt, svo að notuð séu ógnvekjandi hugtök úr heimi herfræðinnar á kjarnorkuöld.

Athyglisvert er, að fulltrúar heimsveldanna á toppfundinum virðast hafa samið um, að í viðræðum um fækkun langdrægra kjarnorkuflauga, sem haldnar eru í Genf, verði ekki gengið lengra en svo, að hvor aðili um sig haldi eftir tæplega 5.000 kjarnaoddum.

Þess vegna er ekki í augsýn núlifandi kynslóða nein ný von um öryggi gegn skipulögðu kjarnorkustríði. Draumsýnir Reagans og Gorbatsjovs á toppfundinum í Reykjavík um afnám langdrægra kjarnorkuflauga hafa verið skotnar niður af ráðgjöfum málsaðila.

Samningurinn um afnám skamm- og meðaldrægra eldflauga er samt mikilvægur. Hann leiðir til aukins svigrúms í slysavörnum. Í fyrsta sinn í vígbúnaðarkapphlaupinu lengist tíminn, sem menn hafa til að meta upplýsingar á tölvuskjám um, að árás sé í aðsigi.

Eldflaugarnar, sem leggja á niður, eru svo skjótar í förum, að varnarmenn hafa aðeins fáar mínútur til að meta, hvort hætta sé á ferðum eða aðeins truflanir í viðbúnaðarkerfi. Samningur um afnám skjótustu flauganna dregur því úr líkum á atómstríði af misskilningi.

Enn mikilvægara atriði samningsins er, að í fyrsta sinn er samið um víðtækt eftirlit með efndum á samkomulagi um takmörkun vígbúnaðar. Komið verður upp föstum eftirlitsmönnum hvors aðila í landi hins og þar að auki gert ráð fyrir ýmiss konar skyndikönnunum.

Þetta bætist við núverandi eftirlit gervihnattaljósmynda og sendingagreininga, sem er svo nákvæmt, að báðir aðilar hafa beinlínis orðið að viðurkenna í samningnum að hafa áður farið rangt með fjölda eigin kjarnorkuflauga og -odda. Svindl verður nánast ókleift.

Þriðji og síðasti merkisþáttur samningsins felst í viðurkenningu á, að samdráttur vígbúnaður megi vera misjafnlega mikill, þegar stefnt er að markmiði jafnvægis í þessum vígbúnaði. Í samræmi við þetta munu Sovétríkin skera meira niður en Bandaríkin gera.

Nákvæmt eftirlit með efndum og jafnvægisleit í misjöfnum niðurskurði eru afskaplega mikilvægt veganesti í viðræðum heimsveldanna á fleiri sviðum viðbúnaðar. Þetta fordæmisgildi er margfalt meira virði en ákvæði samningsins um sjálfa fækkun oddanna.

Svo má ekki gleyma, að toppfundurinn veldur vonbrigðum með, að ekki skuli þar hafa verið stigin merkjanleg skref í átt til afnáms efnavopna; til samdráttar hefðbundinna vopna; og til myndunar breiðs svæðis án vopna og hermanna beggja vegna járntjalds.

Eftir Gorbatsjovs-æðið skulum við loks muna, að fundurinn markaði hvorki skref í átt til friðar í Afganistan né í átt til aukinna mannréttinda í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV