Miðvörðuheiði

Frá Haga í Hagavaðli á Barðaströnd um Miðvörðuheiði til Norðurbotns í Tálknafirði.

Leiðin er stórgrýtt og erfið hestum á háheiðinni og villugjörn, ef eitthvað er að veðri.

Sagt er, að hin harðdræga sýslumannsfrú á 18. öld, Halldóra Teitsdóttir í Haga, hafi glatað silfursjóði sínum sínu ofan í Botnsgljúfur, þegar klyfjahestur fældist. Hagi er eitt af helztu höfðingjasetrum landsins. Þar bjó á söguöld hinn djúpvitri Gestur Oddleifsson. Þar sátu sýslumenn og þar sat Guðmundur Scheving, sem var amtmaður Jörundar hundadagakonungs. Jón Thoroddsen sýslumaður skrifaði þar Pilt og stúlku. Synir hans voru Þorvaldur Thoroddsen, Skúli Thoroddsen og Sigurður Thoroddsen, faðir Gunnars Thoroddsen. Hákon Kristófersson alþingismaður bjó í Haga um miðja síðustu öld, bróðir Eiríks Kristóferssonar skipherra.

Förum frá Hagavaðli norðvestur og upp með Hagaá norðanverðri, upp Eflisholt, framhjá Hákonarstekk og neðan við Skjólhamra, sunnan og vestan í Hagamúla. Upp Seljabrekkur og norðvestur hjá Miðvörðu. Upp með og yfir Goluskarð, fyrir Fellisfót. Síðan norðvestur yfir Hagavatnadal, um Miðvörðuheiði í 560 metra hæð. Norðvestur hjá Sjónarhól, fyrir norðaustan Botnsgljúfur og gljúfur Þverár og Reykjagil á Dufansdalsheiði. Þaðan beint norðvestur og niður í Norðurbotn í Tálknafirði. Höldum áfram ofan gilja norðanvert við gljúfrið og komum að Hjallatúni við norðanverðan botn Tálknafjarðar.

18,8 km
Vestfirðir

Nálægar leiðir: Fossaheiði, Mjósund, Botnaheiði, Tálknafjörður, Hagavaðall, Dufansdalur, Gýgjarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort