Kræfasti skylmingamaður ríkisstjórnarinnar er fjármálaráðherrann, sem segir fullum fetum, að svart sé hvítt og hvítt sé svart og að önnur sjónarmið séu bara rugl eða skepnuskapur úr DV. Í ráðuneytinu endurtekur sölustjóri ráðherrans þetta með minni tilþrifum.
Rök ráðherrans og upplýsingafulltrúans eru þau, að skattahækkanirnar staldri ekki við í ríkissjóði, heldur renni jafnóðum til brýnustu nauðsynja borgaranna, hvort sem þær felast í feitu kjöti eða smjöri. Samkvæmt þessu tekur ríkið raunar alls enga skatta af fólki!
Óneitanlega eru þetta skemmtilegri fullyrðingar en nöldur málsvara Sjálfstæðisflokksins um, að gagnrýnendur geti ekki í senn heimtað hallalaus fjárlög og engar skattahækkanir. Þessi rök fótgönguliðsins eru orðin ósköp slitin og hæfa vel öldnum stjórnmálaflokki.
Fjárlög og ríkisrekstur má hafa án halla með því að hækka skatta og einnig með því að lækka útgjöld. Menn geta því hafnað halla og skattahækkunum í senn, ef þeir þora að benda á, hvaða útgjöld megi skera niður. Og svo vel vill til, að af nógu slíku er að taka.
Landbúnaðurinn á að fá til sín tæpa sex milljarða króna á næsta ári. Það er meira en tvöföldun milli ára. Þessi þurftarfreki ómagi á að gleypa tæplega tíunda hlut útgjalda ríkisins á næsta ári. Ríkisbúskapurinn snýst raunar um þennan þjóðlega félagsmálapakka.
Fólk grætur hástöfum út af smápeningum, sem hafa runnið til ævintýra á borð við Kröflu og Leifsstöð og jafnvel smáaurum, sem hafa runnið til minni háttar ævintýra á borð við Þörungaverksmiðju og Sjóefnavinnslu. Margir gráta þetta meira en landbúnaðinn.
Fáir þingmenn tárast, þegar þeir samþykkja að verja til landbúnaðar fjárhæð, sem mundi nægja til að malbika allan hringveginn um landið rúmlega tvisvar sinnum á hverju einasta ári. Það er heilög byggðastefna að taka landbúnaðinn fram yfir allt, líka hringveginn.
Segja má, að mikilvægasti tilgangur ríkisvaldsins sé nú á dögum hinn sami og hann var á einokunartímanum: að halda þjóðinni í gíslingu hins hefðbundna landbúnaðar og láta peninga, sem fæðast í sjávarútvegi, renna um kerfið til að deyja að lokum í landbúnaði.
Núverandi ríkisstjórn er trúrri fangavörður en flestar fyrri stjórnir. Hún hefur verið ötulli en aðrar við að afla fjár handa eigendum landsins. Vikulega hefur hún hækkað álögur um 420 milljónir króna að meðaltali eða samtals um tíu milljarða króna á 22 vikum ævi sinnar.
Ríkisstjórnin, sem var á undan þessari, hafði skattlagt þjóðina tiltölulega hóflega. Á valdaskeiði hennar dansaði skattbyrðin í kringum 22% af vergri framleiðslu landsins. Nýja ríkisstjórnin er hins vegar svo skattaglöð, að skattbyrðin fer í 25% á næsta ári.
Í tilefni Íslandsmets í skattlagningu er hressilegast og hugmyndaríkast að segja eins og fjármálaráðherrann, að skattar hafi alls ekki hækkað. Málsvararnir, sem játa hækkunina og verja hana með hugsjón jafnvægis í ríkisrekstri, eru hversdagslegri og leiðigjarnari.
Með því að stara á A-hluta fjárlagafrumvarpsins sjá málsvarar ríkisstjórnarinnar hallaleysið, sem þeir tala um. En ráðgerður heildarhalli á búskap hins opinbera á næsta ári verður rúmlega 14 milljarðar, svo sem sést af, að sú verður lánsfjárþörf hins opinbera árið 1988.
Landsfeður okkar sameina stórfelldan hallarekstur og Íslandsmet í skattheimtu í blindri trú á þá hugsjón, að fé þjóðarinnar skuli brenna til ösku í landbúnaði.
Jónas Kristjánsson
DV