Slatti í poka

Punktar

Greinar mínar hér á heimasíðunni orðnar 20.000, -tuttugu þúsund. Það er slatti í poka. En þær ná yfir langt tímabil, nærri hálfa öld. Flestar eru þær stuttar, einkum bloggið, sem ég hef skrifað allt frá 2002. Næst að fjölda koma leiðarar í Vísi, Dagblaðinu og DV allt frá 1973. Þarna eru greinar í Eiðfaxa 2003-2005 og kaflar úr ellefu bókum um erlendar ferðaborgir 1981-1996. Lítið er enn komið inn af efni úr fjórtán hestabókum 1989-2002. Þarna eru komnir blaðamennsku-fyrirlestrar mínir í Háskólanum í Reykjavík 2006-2008, en þó ekki starfssagan, sem kom út 2009. Er að setja inn leiðir úr „Þúsundogeinni þjóðleið“ frá 2011 og eru þegar komnar inn 700 leiðir. Ævistarfið er drjúgt að magni, hvað sem segja má um gæðin. Senn fer að linna.