Sauðir óskast

Greinar

Oft höfum við heyrt að undanförnu, að gengi krónunnar sé fallið í raun, en ekki megi viðurkenna það formlega vegna fyrirhugaðra kjarasamninga. Til að koma í veg fyrir, að gengislækkun magni frekju í kjarasamningum verði að fresta henni fram yfir þá.

Þessi sérkennilega umræða vekur spurningu um, hverjir séu sauðirnir, sem blekkja eigi með frestun gengislækkunar. Er kannski talið, að stjórnendur launþegasamtaka og allir þeirra menn verði meðfærilegri að gengislækkun yfirvofandi en að henni framkvæmdri

Nýlega tók þingmaður frá Alþýðuflokknum þátt í baráttu fréttaleikhúss Stöðvar tvö gegn háum vöxtum. Að þjóðlegum sið grét hann örlög skuldara, en hirti ekki um að ræða og reyna að hrekja rökin gegn lækkun vaxta. Hann virtist afar ánægður með frammistöðu sína.

Fleirum en Stöð tvö kæmi vel niðurgreiðsla á vöxt um. Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur töluverðan forgang að lánsfé og mundi hagnast á niðurgreiðslu vaxta. Fréttaleikhúsið hefur hampað forstjóra fyrirtækisins kvöld eftir kvöld sem stuðningsmanni í málinu.

Forstjóri Sambandsins lætur eðlilega stjórnast af hagsmunum eigin fyrirtækis, þegar hann vill niðurgreiða vexti og einnig þegar hann vill lækka gengið. Það er svo óskylt mál, að hann hefur rangt fyrir sér í fyrra tilvikinu og rétt fyrir sér í hinu síðara.

Rétt og rangt eru aukaatriði í hagsmunagæzlunni, sem einkennir íslenzka þjóðmálaumræðu. Gæzlumenn hagsmuna líta ekkert á mótrök og virðast telja, að hugsanlegum áheyrendum sé nokkuð sama. Þeir séu sauðir til að blekkja. Og svo geta gæzlumenn líka verið sauðir.

Uppfræðari ungmenna á Akureyri hefur um skeið verið talinn líklegt þingmannsefni. Hann skrifaði nýlega grein, þar sem hann kvartaði um, að DV hefði í leiðara tekið afstöðu gegn borun vegagata í fjöll. Hann forðaðist að rökstyðja götin, nema sem lið í byggðastefnu.

Athyglisvert er, að þingmannsefnið taldi andstöðu DV við götin stinga í stúf við stuðning DV við annað byggðamál, frjálst gengi krónunnar. Hann virtist ekki telja, að mál gætu haft eigin kosti og galla, burtséð frá því, hvort þau stuðluðu að byggðajafnvægi eða ekki.

Gæzlumenn hagsmuna byggðastefnu vilja ekki ræða þá frá öðrum sjónarhóli, til dæmis þjóðhagslegum. Þeir vilja ekki, að fólk átti sig á, að þjóðarhagur geti í sumum tilvikum, og ekki öðrum, farið saman við byggðastefnu. Þeir virðast raunar ekki skilja það sjálfir.

Merkasta dæmið um þetta er hinn hefðbundni landbúnaður. Ótal rök hafa verið færð að því, að hætta beri opinberum afskiptum, er felast í innflutningsbanni, uppbótum, niðurgreiðslum og styrkjum. Fæstum rakanna hefur nokkru sinni verið mætt með gagnrökum.

Nýtt dæmi um sérkenni umræðunnar um þjóðmál er, að fjármálaráðherra sagði skattahækkanir sínar ekki vera hækkanir, því að þær rynnu til sameiginlegra þarfa okkar. Hann virðist telja þá, sem fylgjast með umræðunni, vera algera sauði. Og kannski eru þeir það.

Hér hefur verið sagt frá ýmsum lauslega tengdum atriðum, sem benda til, að flóknar og erfiðar röksemdir fari hér á landi nú sem fyrr mjög halloka fyrir hreinum og tærum hagsmunum, annaðhvort af því að menn skilja ekki betur eða vilja ekki skilja betur.

Blekkingin sigrar oftast þekkinguna. En ekki er auðvelt að sjá, hverjir séu fremur blekktir, sauðirnir, sem blekkja á, eða sauðirnir, sem eru að reyna að blekkja.

Jónas Kristjánsson

DV