Aldagamalt afturhald

Greinar

Hin illræmda einokunarverzlun Danakonungs á Íslandi á sautjándu og átjándu öld bar greinileg einkenni landbúnaðarstefnunnar, sem er hornsteinn ríkisvalds og stjórnmála Íslendinga á ofanverði tuttugustu öld. Sagan endurtekur sig öldum saman í lítt breyttri mynd.

Doktorsritgerð Gísla Gunnarssonar sagnfræðings um einokunarverzlunina kom út á íslenzku fyrir jólin. Þar kemur meðal annars fram, að íslenzki landaðallinn studdi einokunarverzlunina og barðist gegn afnámi hennar, þegar brezk fríverzlunarstefna breiddist út.

Markmið íslenzka embættis- og landeignaaðalsins komu vel fram í ummælum Ólafs Stephensens stiftamtmanns, er hann sagði áríðandi, að “landjarðir verði eigi yfirgefnar vegna of mikilla tillokkana fólks að sjó”. Þetta er sama stefna og ríkir hér á landi tveimur öldum síðar.

Landeignamenn fyrri tíma vildu halda sjávarútvegi í skefjum til að aftra atvinnufreistingum á mölinni og hindra tilsvarandi kjarakröfur dugmikilla vinnumanna. Þeir töldu líka, að sjávarsíðan yki lausagang á lýðnum og græfi undan hefðbundinni skipan þjóðfélagsins.

Nokkrum öldum síðar vinna allir stjórnmálaflokkarnir enn að þessu sama markmiði. Verulegum hluta af peningum sameiginlegra sjóða okkar er varið til að hamla gegn flutningi fólks á mölina, þar sem tækifærin eru. Byggðastefnan er sögð vera þjóðleg verndarstefna.

Landeigendur fyrri alda komu því svo fyrir í einokunarkerfi konungs, að verði á sjávarvörum var haldið lágu til að halda uppi háu verði á ullarvörum. Þannig var sjávarútvegur látinn fjármagna landbúnað á einokunartímanum eins og hann er látinn gera enn þann dag í dag.

Goðar þjóðveldisins áskildu sér rétt til að stjórna vöruverði, meðal annars til að gæta hefðbundins jafnvægis milli atvinnuvega. Hliðstætt eftirlit stunduðu síðar sýslumenn og aðrir embættismenn í nafni konungs. Kvótakerfi og verðlagsráð eiga sér fornar rætur.

Allir stjórnmálaflokkar landsins eru í höfuðdráttum sammála um, að varið skuli til landbúnaðar sex milljörðum króna af sameiginlegu fé á þessu ári. Peningarnir spretta í sjávarútvegi, en eru hirtir þaðan með atvinnupólitískri skráningu á gengi krónunnar.

Einokunarverzlun sautjándu aldar var aðferð valdastéttar þess tíma til að láta sjávarútveginn fjármagna landbúnaðinn. Stjórnmál nútímans snúast um hið sama. Fjárlög eru smíðuð utan um millifærsluna, genginu er haldið uppi með valdi og útgerðin drepin í kvótadróma.

Munurinn er þó sá, að hinn landlausi lýður, sem landeigendur kúguðu með einokunarverzlun fyrir nokkrum öldum, var valdalaus með öllu. Nú er hins vegar fólkið á mölinni komið með kosningarétt og er orðið í meirihluta kjósenda og gæti borið hönd fyrir höfuð sér.

Fólkið í sjávarplássunum hefur hins vegar látið telja sér trú um, að hagsmunir þess lúti byggðastefnu landeigenda, sem gefur vegagöt í fjöll og aðrar ruður af borði landbúnaðarins. Það hefur látið telja sér trú um, að malarfólkið á Reykjavíkursvæðinu sé óvinurinn.

Þurrabúðarfólk nútímans kýs sex stjórnmálaflokka, sem hafa það eitt sameiginlegt að gæta sömu hagsmuna og yfirvöld landsins hafa gætt öldum saman, sjá til þess, að hefðbundnu þjóðfélagsmynztri sé sem minnst breytt og brenna öllu tiltæku fé í þjóðlegri byggðastefnu.

Sagnfræðilega er vel við hæfi, að ættarlaukur kaupfélaga fái nú sem sjávarútvegsráðherra auknar heimildir til að kvóta sjávarútveginn í þágu fortíðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV