Mývatnsrif

Frá Álftagerði við Mývatn um Haganes og síðan um Rifið yfir Mývatn.

Rifið er raunar mörkin milli Mývatns og Laxár, þótt stórir flóar séu neðan þess. Þessi leið var áður farin með brennistein úr Fremri-Námum í Ketildyngju til Húsavíkur, þegar kóngurinn í Kaupmannahöfn þurfti að fara í stríð. Þegar þeir flutningar lögðust af, týndist þetta vað á Mývatni. Arngrímur Geirsson á Skútustöðum og fleiri hestamenn við Mývatn fundu vaðið aftur og hafa síðan hjálpað hestamönnum yfir það. Vaðið er 300 metra langt, traust og hvergi sund, en vel í síðu. Önnur vöð eru neðar, svo sem Brautarsteinsvað, Sauðavað, Gunnlaugsvað, Helluvað og Geirastaðavað. Mest notuð voru Brotavöð, þar sem farið var yfir Laxá í fjórum kvíslum um Brotahólma og Hrútey, hálfum kílómetra norðan við bæinn á Helluvaði.

Förum frá Álftagerði hálfan kílómetra vestur með þjóðvegi 1 að hliði á afleggjara að Haganesi. Fylgjum heimreiðinni í Haganes og þaðan eftir reiðslóð norður í Fjárborg og síðan vestur á Rifshöfða í norðvesturhorni Haganess. Einnig er hægt að fara vestur og norður fyrir Blátjörn út í Rifshöfða. Þar förum við vestur yfir Mývatn á Rifinu norðan við Ytri-Breiðu, 300 metra langt vað. Komum í land undir Rifsborgum rétt við þjóðveg 848 norðan Mývatns, í Geirastaðahrauni milli Vagnbrekku og Geirastaða. Síðan sömu leið til baka aftur. Þessa leið má aðeins fara með kunnugum manni, því að djúpt er beggja vegna rifsins. Arngrímur Geirsson á Skútustöðum hefur hjálpað mönnum yfir vaðið.

7,0 km
Þingeyjarsýslur

Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Skútustaðir: N65 34.050 W17 02.200.

Nálægir ferlar: Krákárbotnar.
Nálægar leiðir: Sandfell.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson