Atkvæði greidd í verki

Greinar

Fólk greiðir atkvæði með ýmsum öðrum hætti en í kosningum einum. Það gerir það með því að haga sér á þennan veg frekar en hinn, þegar það á um kosti að velja. Niðurstöður þessara atkvæðagreiðslna fólks úti í bæ eru oft þveröfugar við það, sem stjórnvöld mæla með.

Ríkisstjórnin hefur undanfarna mánuði tjáð fólki, að gengi íslenzku krónunnar yrði áfram haldið föstu, enda væri lítið gagn í gengislækkun, sem mundi leiða til aukinnar verðbólgu. Ef fólk hefði tekið mark á þessu, hefði það ekki flýtt sér að kaupa innfluttar vörur.

Þeim mun meiri ástæða var fyrir fólk að fara sér að engu óðslega í kaupum á gjafavörum og tízkuvörum í desember, að ríkisstjórnin hafði boðað tollalækkun þessara leikfanga peningafólks á kostnað nauðsynja lágtekjufólks, sem lifir á fiski, grænmeti og ávöxtum.

Ennfremur hafa ráðherrar á undanförnum vikum og í áramótaprédikunum tekið undir gagnrýni á háa raunvexti, sem séu að sliga atvinnulífið, húsbyggjendur og þjóðfélagið í heild. Ef fólk hefði trúað þessu, væri það nú að kaupa spariskírteini, meðan vextir eru enn háir.

Í rauninni flæddu peningar um þjóðfélagið í síðasta mánuði. Kaupæðið fyrir jólin var gífurlegt. Greinilegt var, að margt fólk hafði mikið eyðslufé handa milli. Ennfremur var augljóst, að það lagði ekki peningana fyrir, heldur vildi koma þeim í lóg sem allra fyrst.

Ef þetta fólk hefði trúað, að tímabili hárra raunvaxta væri um það bil að ljúka, hefði meira af því keypt sér og sínum ríkisskuldabréf eða aðra pappíra hinna háu vaxta, til dæmis sem jólagjafir. Þannig hefði það varðveitt hinar háu vaxtatekjur mörg ár fram í tímann.

Þetta hefði auðvitað hlaðið upp peningum í stofnunum, sem taka við fé til útlána. Hið þveröfuga gerðist í desember, að lausafjárstaða banka versnaði svo snögglega, að aukning innlána varð í heild minni á síðasta ári en árið áður, þrátt fyrir töluvert góða byrjun.

Tiltölulega mild verðbólga var um nokkurra mánaða skeið árið 1986 og fram á 1987. Þetta olli háum raunvöxtum, sem hefðu gert sitt gagn og lokið ætlunarverki sínu, ef verðbólgan hefði haldizt í skefjum. Um síðir hefði þjóðin farið að spara og ríkið hætt að sóa.

Aldrei reyndi á, hvort raunvextirnir næðu þessum árangri og gætu síðan lækkað aftur. Verðbólgan var vaxandi í fyrra og hungur ríkisins í lánsfé var áfram óseðjandi. Hins vegar eru ráðherrarnir, sem eyðilögðu tilraunina, farnir að kvarta um, að vextir séu of háir.

Ef raunvextir yrðu nú lækkaðir með handafli, yrði enn minna fé lagt til hliðar og skömmtun lánsfjár yrði enn strangari en nú. Það mundi bæta hag þeirra, sem hafa pólitískan forgang að lánsfé, en spilla stöðu allra hinna, sem ekki teljast til gæludýra kerfisins.

Ríkisstjórnin hefur ekki aðeins klúðrað jafnvægi lánamarkaðarins, heldur hefur hún valdið þjóðinni ómælanlegu tjóni með fastgengisstefnu, sem hefur gert innfluttar vörur óeðlilega ódýrar og kallað á óhóflegan innflutning, svo sem við sáum bezt í jólaösinni.

Þjóðin trúir ekki ríkisstjórn, sem nú segist ætla að halda genginu föstu og jafnvel lækka raunvexti. Í desember notaði fólk ekki sparifé sitt til að ná til langframa í háa raunvexti, heldur til að kaupa útlendar vörur á hagstæðu gengi, meðan það taldi vera enn vera tækifæri.

Með þessu er fólk að greiða atkvæði gegn veiklundaðri ríkisstjórn, sem er farin að kenna ógerðum kjarasamningum um hagtjón, er stjórnin hefur þegar unnið.

Jónas Kristjánsson

DV