Merk og dýr sjálfsblekking

Greinar

Raunverulegt aðalhlutverk ríkisvalds á Íslandi er að færa fé úr sjávarútvegi til landbúnaðar. Þetta felur í sér mesta peningaflutning í landinu. Hann nemur í ár nokkrum Keflavíkurflugstöðvum, því að landbúnaðurinn brennir sex milljörðum af ríkisfjárlögum ársins.

Fjárheimtan er tiltölulega einföld. Ríkið hefur tekið sér vald til að skrá gengi krónunnar með handafli og hagar skráningunni á þann hátt, að sjávarútvegurinn sé rekinn á því sem næst núlli, samkvæmt umfangsmiklum reikningum í opinberum hagfræðistofnunum.

Þetta er samkvæmt hinni rómversku fyrirmynd í skattheimtu að rýja þegnana, en flá þá ekki. Þjóðarauðurinn er að mestu upprunninn í hinni einu, sönnu stóriðju landsins, fiskveiðunum, en er síðan dreift um þjóðfélagið til að halda uppi velmegun og landbúnaði.

Til réttlætingar kerfinu hefur byggzt upp viðamikið kerfi hugsjóna, er hefur byggðastefnu að þungamiðju. Talið er þjóðlegt og mannlegt að haga málum á þennan hátt og jafnframt er fordæmd sú auðhyggja, sem talin er felast í gagnrýni á hið aldagamla millifærslukerfi.

Svipað ástand var fyrir tveimur og þremur öldum, þegar íslenzkir embættismenn úr stétt landeigenda héldu uppi einokunarverzlun konungs til að hindra myndun lausalýðs á mölinni og draga úr atvinnufreistingum, sem kynnu að magna kjarakröfur vinnumanna.

Millifærslan hefur lifað góðu lífi öldum saman og fram á þennan dag, af því að hugsjón byggðastefnunnar hefur náð almennri viðurkenningu. Þurrabúðarmenn nútímans, íbúarnir við sjávarsíðuna, taka að vísu óljóst eftir millifærslunni, en skilja ekki eðli hennar.

Fólkið í útgerðarplássunum er að vísu stundum að velta fyrir sér, hversu mikið af þjóðartekjunum myndist þar og hversu litlu af þeim sé varið þar. En það dregur ekki af þessu þá ályktun, að millifærsluna eigi að stöðva, heldur vill það fá hluta herfangsins til baka.

Hugsjóna- og hagsmunamenn byggðastefnunnar halda stíft fram þeim áhugamálum, sem þeir segjast eiga sameiginleg með þurrabúðarfólki. Þau felast einkum í að fá til sín sem mest af opinberri þjónustu, er greiðist af sameiginlegum sjóði þjóðarinnar, ríkissjóði.

Þannig er pólitísk orka fólks í sjávarplássum virkjuð í baráttu fyrir ríkispeningum í vegi, flugvöll, síma, rafmagn, skóla, sundlaug og vegagöt í fjöll. Baráttan er háð undir merkjum byggðastefnu, sem útvegar smáaura í þetta, en dreifir alvöruupphæðum til landbúnaðar.

Sjávarsíðan fær til baka með þessum hætti aðeins hluta af verðmætasköpun sinni. Fyrst eru nefnilega teknir til landbúnaðar og brenndir þar til ösku sex milljarðar króna árlega af aflafé stefnunnar. Tiltölulega lítið verður því afgangs til annarra verkefna byggðastefnu.

Vanmáttur þurrabúðarfólks fellur í farveg andstöðu við Reykjavíkursvæðið, þaðan sem ríkisvaldinu er stýrt. Íbúar fiskibæja heimta meira í sinn hlut, í mynd aukinnar byggðastefnu. Þeir átta sig ekki á, að hagsmunir Reykjavíkur og sjávarsíðunnar eru hliðstæðir.

Miklu hagkvæmara væri fyrir íbúa fiskveiðibæja að fá því framgengt, að gengi krónunnar verði ekki skráð með handafli, heldur eftir framboði og eftirspurn á svipaðan hátt og í alvöruríkjum. Þá yrði miklu meira af arðinum eftir heima fyrir í bæjum gjaldeyrisöflunar.

Stuðningur sjávarsíðunnar við ríkjandi byggðastefnu og við aukna fjáröflun til hennar er merkasta og dýrasta dæmið, sem til er um sjálfsblekkingu hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV