Ísrael er að verða skrímsli

Greinar

Fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum átti fyrir fjórum áratugum mikinn þátt í að fá samtökin til að viðurkenna Ísrael með því að samþykkja skiptingu landsins. Frá þessum þætti segir í endurminningum Abba Ebans, fyrrverandi utanríkisráðherra Ísraels.

Fyrstu þrjá áratugina höfðu Íslendingar mikið dálæti á hinu unga ríki, þar sem menn breyttu eyðimörk í aldingarð og sendu hingað Davíð Ben Gurion og Goldu Meir. Við sáum okkur sjálf í dugnaði og áræði þeirra, sem fóru yfir haf og sand til fyrirheitna landsins.

Þá voru við völd Ísraels evrópskir flóttamenn, sprottnir úr andrúmslofti gamla heimsins og tiltölulega friðsamir í trúmálum. Þeir voru úr meginarmi þjóðfrelsishersins og fylktu sér einkum um Verkamannaflokkinn, sem réð mestu í landinu þessa þrjá áratugi.

Síðasta áratuginn hafa þessi viðhorf verið á hægu undanhaldi í Ísrael. Til valda komst bandalag gamalla hryðjuverkamanna á borð við Menachem Begin og trúarofstækismanna, sem eru til vandræða í Ísrael eins og víða annars staðar, svo sem í Íran og Írlandi.

Arftakar Begins eru þeir Yitzhak Shamir og hinn ógeðfelldi Ariel Sharon, sem stjórna landinu í samstarfi við mjög svo veiktan Verkamannaflokk undir forustu Símonar Peresar. Stjórnarstefnan hefur orðið illskeyttari í garð hernuminna araba og arabískra nágranna.

Hryðjuverk stjórnar Ísraels á Gaza-svæðinu og á öðrum hernumdum svæðum síðasta mánuðinn eru eðlilegt og hörmulegt framhald á siðferðislegu hruni Ísraelsríkis hins nýja.

Frumherjaríkið er óðum að breytast í skrímsli, sem fjarlægist vestræna hugmyndafræði. Unglingarnir, sem Ísraelsstjórn lætur myrða þessa dagana, eru ekki skæruliðar Arafats, heldur sjálfgerður þáttur í uppreisn kúgaðrar þjóðar. Shamir og Sharon þekkja ekkert andsvar annað en meira ofbeldi af hálfu ríkishersins, meiri kúgun og aukna forherðingu.

Ísrael er smám saman að einangrast á svipaðan hátt og Suður-Afríka, enda dregur stjórnarfarið vaxandi dám af aðskilnaðarstefnunni. Við höfum lengi séð einkennin í þvingaðri búsetu ódýrs vinnuafls á þröngum svæðum. Gaza minnir okkur á illræmt Soweto í Suður-Afríku.

Nú sjáum við einkennin í fruntaskap herlögreglu, í stuðningi Ísraela við ríkishryðjuverkin og í ritskoðun efnis til erlendra fjölmiðla. Ísraelsríki og Ísraelar virðast vera reiðubúnir til að vaða áfram í einstrengingslegri blindni, án tillits til álitshnekkis í umheiminum.

Ísrael hefði ekki farið að breytast í skrímsli, ef það hefði ekki getað treyst á því sem næst skilyrðislausan stuðning Bandaríkjanna. Ísrael er að verulegu leyti fjármagnað af bandarískum peningum og allt til hins síðasta varið bandarískri utanríkisstefnu á alþjóðavettvangi.

Með ólíkindum er, hvílík heljartök vinir Ísraels hafa á bandarískum stjórnmálum. Þrýstistofnun þeirra, sem nefnist Aipac, hefur lengi verið fyrirmynd þeirra, sem eru að læra, hvernig á að beita þrýstingi gagnvart þingmönnum, ráðherrum og öðrum stjórnmálamönnum.

Nú fer hinn bandaríski stuðningur ört minnkandi. Á sama tíma sér margt æskufólk í Ísrael siðblindu ríkisstefnunnar, neitar að gegna herþjónustu og flýr úr landi. Eftir sitja að völdum hálftrylltir rabbíar og ofbeldishyggjumenn, sem minna óþægilega á nasista.

Því miður virðist Ísrael óumflýjanlega stefna í átt til hinnar stjórnmálalegu eyðimerkur Suður-Afríku. Það er sár hugsun þeim, sem virtu Ísrael fyrir áratug.

Jónas Kristjánsson

DV