Deilt og drottnað í fáti

Greinar

Deilingar- og drottnunarárátta þeirra, sem komast til valda, er jafnan hættuleg lýðræðinu og þeim sjálfum, sem haldnir eru. Hér hefur ráðherraveikin leitt til millifærslna og miðstýringar, sem torveldar þjóðinni að meta, hvað er efnahagslega heilbrigt og skynsamlegt.

Verra er ástandið, þegar áráttan er reist á öryggisleysi og hræðslu stjórnmálamannanna, svo sem nú er. Skelfdir valdsdýrkendur eru hættulegastir. Ríkisstjórnin rambar milli þverstæðra ákvarðana og gefur til baka með annarri hendinni það, sem hún tók með hinni.

Ekki kemur á óvart, að ríkisstjórnin hefur bannað birtingu hinnar nýju þjóðhagsspár. Ráðherrarnir telja, að upplýsingar eigin áróðursráðuneytis séu of hættulegar óútreiknanlegri þjóð. Þær kunni að leiða til aukinna launakrafna og vaxandi óbeitar á ríkisstjórninni.

Áróðursráðuneytið í Þjóðhagsstofnun á ekki sjö dagana sæla. Ýmsir aðilar úti í bæ hafa tekið að sér að spá nákvæmar fyrir þjóðinni en gert er af hálfu landsstjórnarinnar. Steininn tók úr, þegar stofnunin breytti skyndilega mati sínu á viðskiptahalla síðasta árs.

Í október taldi stofnunin, að hallinn yrði hálfur þriðji milljarður. Þremur mánuðum síðar telur hún núna, að hann hafi orðið hálfur sjöundi milljarður. Hún virðist í fyrra skiptið hvorki hafa vitað um stöðu útflutningsbirgða né um áhrif gengisskráningar á innflutning.

Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í vetur hafa frá upphafi einkennzt af millifærslum. Matarskatturinn var upphaflega öðrum þræði tilraun til að einfalda skattakerfið, en missti þess marks, þegar farið var að fjölga skattstigum og stórauka niðurgreiðslur í landbúnaði.

Þótt ríkishakkavélin hafi verið voldug fyrir, reyndist enn unnt að magna hana. Það var gert með því að auka niðurgreiðslur um þrjá milljarða og koma landbúnaðarliðum fjárlaga upp í sex milljarða. Afar erfitt mun reynast að losna úr slíkum millifærslu-frumskógi.

Ráðagerðir stjórnarinnar voru handahófslega unnar og leiddu til óvandaðrar nætur- og helgidagavinnu á Alþingi. Niðurstöður raunveruleikans urðu ekki hinar sömu og í talnaleikjum ríkisstjórnarinnar. Í ljós kom, að byrðar fólks höfðu verið þyngdar verulega.

Svipuð skelfing greip um sig í ríkisstjórninni og hafði orðið fyrr í vetur, þegar matarskatturinn fæddist á afturfótum. Ráðherrar gefa þessa dagana í skyn hver um annan þveran, að til greina komi að lækka skattleysismörk til að bæta sumu láglaunafólki skattahækkunina.

Á óreiðuflótta af þessu tagi hafa menn ekki tíma og kjark til að horfast í augu við, að eftirgjafir á tekjuskatti hafa sömu áhrif og eftirgjafir á matarskatti. Þær rýra tekjuhlið fjárlaga, magna þannig hallarekstur ríkissjóðs og auka með því veltu, vexti og verðbólgu.

Hræðslan við krónugengið er þó flestu öðru yfirsterkari. Reynt er að bæta hag frystihúsanna með að gefa eftir söluskatt og ennfremur reynt að kaupa frið fiskvinnslufólks með því að veifa sérstökum skattfríðindum, það er að ríkið taki óbeint að sér hluta kaupgreiðslnanna.

Með því að neita að horfast í augu við gengisstaðreyndir er stjórnin að kippa fiskvinnslunni með sér inn í draumaheiminn og byggja þar upp miðstýrðan ríkisrekstur á borð við landbúnað, þar sem millifærslur og talnaleikir leysa efnahagslögmálin af hólmi.

Deilingar- og drottnunarveikin varð margfalt skæðari við að blandast ráðleysi og fáti skelfingar. Þessa dagana bakar blandan okkur millifærslur og miðstýringu.

Jónas Kristjánsson

DV