Hver barði Vestfirðinga

Greinar

Vestfirðingar minna á manninn, sem var sleginn, en reis úr rotinu og barði næsta mann. Vestfirðingar telja sig vera arðrænda, svo að notað sé gamalt og úrelt orð. En þeir gera sér ennþá hvorki grein fyrir, hvernig stendur á því, né hvernig bezt sé að verjast arðráninu.

Í kjaraviðræðum á Vestfjörðum sáu málsaðilar í fyrstu bjargvætt sinn í ríkinu. Fyrir síðustu helgi bentu þeir á lykil að samningsgrundvelli, er gæti raunar gilt um allt land. Hann fólst í, að ríkið niðurgreiddi samninginn með skattaívilnunum handa fiskvinnslufólki.

Þegar það fékkst ekki, gáfust Vestfirðingar ekki upp, heldur héldu áfram að semja upp á eigin ábyrgð, en ekki ríkisins. Í niðurstöðu þeirra er merkilegt fordæmi, nýtt afkastakerfi. Þar sýna þeir hliðstæða forustu og þeir hafa sýnt í andstöðu við aflakvótakerfið.

Vestfirðingar hafa einkum tvenns konar sérstöðu í efnahagslífinu. Í fyrsta lagi er sjávarútvegur og fiskvinnsla stærri hluti þess á Vestfjörðum en í öðrum kjördæmum. Og í öðru lagi er landbúnaður þar vestra minni en í öðrum kjördæmum utan Reykjavíkursvæðis.

Vestfirðingar hneigjast hins vegar til að einblína á þriðja einkennið, sem kjördæmið á sameiginlegt með kjördæmum utan Reykjavíkursvæðis. Það er lágt hlutfall þjónustustarfa. Í því vilja Vestfirðingar sjá skýringu á, hvers vegna þeir beri skarðan hlut frá borði.

Þjónustugreinar eru sagðar á verðbólgutímum geta hækkað laun starfsliðs síns og velt hækkuninni út í verðlagið, meðan fiskvinnslan á Vestfjörðum sé háð föstu gengi krónunnar og geti ekki keppt við þjónustuna um starfskrafta. Þetta er í stórum dráttum rétt.

Eðlileg afleiðing þessarar kenningar væri krafa um, að horfið yrði frá fastgengisstefnu og krónunni leyft að fljóta. Það stríðir hins vegar gegn hagfræðilegum trúarbrögðum, sem hafa í vaxandi mæli sett svip sinn á klisjulið íslenzkra stjórnmála síðustu árin.

Þjóðinni mundi samt vegna betur, ef hún hætti að skrá gengi krónunnar, það er að segja hætti að halda henni uppi með handafli. Hér í blaðinu hefur oft verið hvatt til notkunar erlendra gjaldmiðla eða alþjóðlegra reikningseininga í viðskiptum hér á landi.

Rétt skráning efnahagslegra verðmæta, hvort sem það er í íslenzkum krónum, svissneskum frönkum eða evrópskum reiknieiningum, er forsenda þess, að þeir aðilar, sem taka þátt í stóriðju verðmætasköpunarinnar, sjávarútveginum, njóti hæfilegs hluta afrakstursins.

Gengi krónunnar er haldið uppi, af því að ríkið þarf sjálft að nota verðmætasköpunina úr sjávarútvegi. Sumpart er það vafalaust gert til að geta haldið uppi góðum lífskjörum embættismanna og annarra íbúa Reykjavíkursvæðis, en það er ekki nema brot af skýringunni.

Ríkið hefur, með stuðningi Vestfirðinga, tekið að sér að reka hefðbundinn landbúnað í landinu. Þessi hluti ríkisrekstrarins kostar þjóðina og þar með Vestfirðinga sex milljarða króna á þessu ári einu, samkvæmt fjárlögum, sem hingað til hafa vanmetið kostnaðinn.

Í stað þess að beina geiri sínum að þessum ríkisrekstri, sem hirðir af þeim arðinn, hafa Vestfirðingar látið ginnast til að mynda bandalag, þar sem andstæðir hagsmunir landbúnaðar og sjávarsíðu sameinast gegn því, sem þeir telja vera þjónustuveldið fyrir sunnan.

Andúð Vestfirðinga á ónýtu aflakvótakerfi bendir þó til, að þeir hugsi nógu sjálfstætt til að geta fyrstir séð, hver lemur hvern. Þótt þeir hafi ekki séð það enn.

Jónas Kristjánsson

DV