Ólíkt höfumst við að

Greinar

Skoðanakannanir fengu góða uppreisn æru á mánudaginn, þegar birtar voru nokkurn veginn samhljóða niðurstöður skoðanakannana DV og Hagvangs um stjórnmálafylgið í landinu. Eru þeir nú fáir eftir, sem segja slíkar kannanir ekki spegla raunveruleikann.

Önnur könnun hefur lent heldur betur í hremmingum að undanförnu. Það er könnunin á lestri tímarita, sem Verzlunarráð lét Félagsvísindastofnun Háskólans gera fyrir sig í vetur. Aðilar þeirrar könnunar hafa sætt þungri og efnislegri gagnrýni á meðferð málsins.

Hlutur Félagsvísindastofnunar er minni í því máli, en þó ámælisverður. Stofnunin kaus að setja niðurstöður sínar fram á þann hátt, að þær yrðu ósambærilegar við fyrri kannanir af því tagi. Þar með vantaði hið mikilvæga og raunar nauðsynlega sögulega samhengi í málið.

Hingað til hafa lestrarkönnuðir jafnan lagt mesta áherzlu á að komast að raun um, hversu margir lesi ákveðið blað eða tímarit að staðaldri eða oft. Tölur um slíkan lestur hafa ætíð verið þær, sem kynntar hafa verið opinberlega sem niðurstöður könnunarinnar.

Í skýrslu Félagsvísindastofnunar voru þær tölur hins vegar ekki reiknaðar út, heldur lögð megináherzla á tölur um fólk, sem hafði séð tímaritið á einu ári, þar með talið fólk, er hafði séð það aðeins einu sinni. Í slíkar tölur vantar sögulegt samhengi við fyrri kannanir.

Starfslið DV reyndi stíft að fá hinar raunverulegu upplýsingar. Á endanum voru tölurnar reiknaðar út á ritstjórn DV. Í fyrradag gat blaðið birt samlagningartölur, sem Félagsvísindastofnun hafði ekki hirt um að birta. Þannig gátum við leiðrétt niðurstöður hennar.

Annars staðar í DV í dag er skýrt frá, hversu mikið blaðið hafði fyrir að afla upplýsinga í máli þessu. Við vildum ekki trúa, að könnunin væri án samhengis við eldri lestrarkannanir, þótt endurtekin viðtöl blaðsins við talsmann Verzlunarráðs bentu til, að svo væri.

Hins vegar gátum við ekkert gert í skekkjunni, sem er afleiðing mikillar útbreiðsluherferðar fyrir nokkur tímaritanna á vikunum fyrir lestrarkönnun. Sú skekkja er enn í útkomunni, þótt við höfum lagfært hinar villandi tölur, sem Félagsvísindastofnun lét frá sér fara.

Deila má um, hvort það var af ásettu ráði eða fávísi hjá Verzlunarráði, að skoðanakönnunin fylgdi í kjölfar hinnar hrikalegu útbreiðsluherferðar. En alténd er ljóst og viðurkennt af öllum, að Verzlunarráði var bent á vandamálið nokkru áður en könnunin var framkvæmd.

Með vinnu DV í málinu hefur verið upplýst, að Félagsvísindastofnun og Verzlunarráð gáfu út til almennings villandi tölur um tímaritalestur, sem gátu fengið ókunnuga til að halda ranglega, að lestur tímarita hefði tvöfaldazt síðan síðast var kannaður lestur tímarita.

Ennfremur hefur verið upplýst, að Félagsvísindastofnun og Verzlunarráð gáfu út til almennings villandi tölur um tímaritalestur, sem gátu fengið ókunnuga til að halda, að lestur tímarita Frjálsrar verzlunar væri töluvert meiri en hann er í raun og veru.

Því miður benda viðbrögð ráðamanna Félagsvísindastofnunar og Verzlunarráðs til, að báðir aðilar séu að minnsta kosti sáttir við frammistöðu sína, ef ekki hreinlega ánægðir. Það bendir til, að framvegis verði að taka niðurstöðutölum kannana þeirra með varúð og efa.

Framvinda málsins vekur líka ótta við, að það sé fremur ásetningur en fávísi, sem valdi hinum gagnrýndu vinnubrögðum, einkum af hálfu Verzlunarráðs.

Jónas Kristjánsson

DV