Hin þjóðlega þrjózka vor

Greinar

Eins og Ísraelsmenn eru Íslendingar þrjózkir og láta útlendinga ekki segja sér fyrir verkum. Hvalveiðar okkar eru ekki lengur aðallega atvinna, heldur fyrst og fremst hugsjón, sem við teljum okkur verða að halda uppi, sumpart til að sýna, að við séum sjálfstæð þjóð.

Helmingur þjóðarinnar stendur að baki sjávarútvegsráðherra sínum. Fjölmiðlar verða að fara varlega, ef þeir fjalla um löggiltan þjóðaróvin á borð við Paul Watson. Þeim hefur líka verið bent á, að óþjóðlegt sé að nota orðið hvalur fyrir það, sem nú heitir sjávarspendýr!

Til að fylgja eftir þessari nýju þjóðarhugsjón hefur sjávarútvegsráðherra tekið forustu fyrir hvalveiðiríkjum heims, það er að segja þeim fáu, sem þora að senda menn á ráðstefnu til Reykjavíkur. Allt bendir til, að Ísland muni knýja fram fleiri fundi af slíku tagi.

Fljótlega mun Ísland með sama áframhaldi taka við af Japan í augum Bandaríkjamanna sem höfuðvígi hugsjónar hvalveiða eða veiða á sjávarspendýrum, eins og það heitir nú. Vafalaust hefur þjóðin manndóm til að standa undir vandamálum, sem fylgja þeirri vegsemd.

Erlendir sérfræðingar í svonefndum ímyndarfræðum hafa bent okkur á, að nauðsynlegt sé að ráða þá sjálfa til að vinna að breyttri ímynd hvalveiða meðal útlendinga, ekki sízt hinna frægu amerísku ríkidæmis-kerlinga, sem sagðar eru gefa Watson sparifé sitt.

Þeir hafa meðal annars bent á, að kanadískir umhverfisverndarmenn hafi gert sjónvarpskvikmynd, þar sem hringormar sjáist engjast í þorskflaki á steikarpönnu. Þetta eigi fljótlega að sýna í kanadísku sjónvarpi til að refsa okkur fyrir viðhorfin til hvalveiða.

Hugmynd ímyndarfræðinganna er vafalaust, að með gífurlegum samskotum hvalveiðiþjóða megi fá fé til að breyta viðhorfum amerískra kerlinga á þann hátt, að kanadískar sjónvarpsstöðvar telji ekki hringorma jafngóða söluvöru og þýzku sjónvarpi þótti í fyrra.

Áður fyrr var unnt að segja, að einfaldasta leiðin út úr vandræðum af þessu tagi væri að losa sig við fornfálegan atvinnuveg, sem gefi lítið í aðra hönd og haldi starfsfólki frá öðrum verkefnum, sem virðist nóg af hér á landi, ef marka má atvinnuauglýsingar í dagblöðum.

Nú má hins vegar halda fram, að vernda beri hvalveiðar eins og landbúnað og að það sé þjóðernisleg skylda okkar að þrjózkast við þær, jafnvel þótt það kosti stórfé til áróðurs- og ímyndarfræðinga, til viðbótar við kostnað af ráðstefnum um svokölluð sjávarspendýr.

Alþingi var áður búið að taka fyrri afstöðuna með því að fallast á, að hvalveiðar yrðu lagðar niður. En margt hefur síðan gerzt. Sjávarútvegsráðherra hefur fundið upp svokallaðar vísindaveiðar á hvölum, sem hafa breytt hagrænni hugsun þjóðarinnar í hugsjón.

Af hugsjónaástæðum neyðumst við til að veiða hundrað hvali árlega með miklum veiði- og vinnslukostnaði og útgjöldum við ráðuneyti og ráðstefnur, þótt lítið sé tryggt af tekjum á móti, jafnvel þótt Japanir reyni að kaupa í laumi eitthvað af hvalaafurðum.

Hagrænna væri að nota peningana, sem fara í þennan kostnað og í útgjöldin við ímyndarfræðinga sjávarútvegsráðuneytisins, til að verjast hinu raunverulega vandamáli þjóðarinnar, sem er, hvernig verði hægt að fá útlendinga til að halda áfram að borða þorsk.

En sjávarútvegsráðherra og helmingur þjóðarinnar eru sammála um, að meira máli skipti að láta útlendinga vita, að þeir geti ekki sagt okkur fyrir verkum.

Jónas Kristjánsson

DV