Refirnir gerðir arðlausir

Greinar

Refaræktin ætti að vera okkur skólabókardæmi um margar af gildrunum, sem felast í byggðastefnu þjóðarinnar. Atvinnuvegur, sem ætti að vera arðbær og er það víða um lönd, hefur verið gerður að beiningamanni, er leitar nú á náðir skattgreiðenda til að verjast hruni.

Bændastjórar í Reykjavík hafa ýtt nærri tvö hundruð embættismönnum úr ríkisrekna landbúnaðinum og dubbað þá upp sem athafnamenn í áhættuiðnaði. Stjórarnir víkjast nú undan ábyrgðinni og segja, að bændum hafi ekki verið ýtt, heldur hafi þeir verið “hvattir”.

Hinir ógæfusömu embættismenn eru vanir hinu örugga lífi lágtekjumannsins, þar sem reikningsmenn bændastjóranna framleiða tölur um, hversu miklar tekjur kúa- og kindabændur “þurfa” hverju sinni. Síðan eru tekjur hefðbundinna bænda lagaðar að tekjuþörf þeirra.

Þetta veldur rosaverði á kjöti og mjólkurvörum. Það eru skattgreiðendur látnir greiða niður, svo þeir hafi sem neytendur efni á að kaupa mestan hluta afurðafjallsins, sem ríkið hefur ábyrgzt. Afgangurinn er sendur úr landi fyrir farmgjöldum eða brenndur á sorphaugum.

Framleiðendur kjöts og mjólkurafurða eru í slíku kerfi eins konar embættismenn, sem fá öruggar lágtekjur eftir þörfum. Þeim er svo skyndilega kastað út í raunverulega atvinnugrein, þar sem menn búa ekki við reiknuð kjör, heldur kaldranalegt markaðsverð.

Skinnamarkaðurinn er meira að segja svo frjáls, að þar duga hvorki persónuleg sambönd að íslenzkum fyrirgreiðsluhætti né sölutæknibrellur, sem við erum að reyna að læra af útlendingum. Skinnin eru einfaldlega seld á uppboði, þar sem hæst verð fæst fyrir mest gæði.

Stundum er hátt verð á þessum markaði og í annan tíma er það lágt. Þegar verðlagið lækkar, minnkar kjarkur framleiðenda og heildarframleiðslan minnkar. Þeir þrauka, sem minnstan tilkostnað hafa að baki hæsta verðinu, og græða síðan, þegar verð hækkar að nýju.

Kostnaður refaræktar hefði orðið Íslandi mjög í vil, ef iðnaðarleg hagkvæmnissjónarmið hefðu fengið að ráða ferðinni. Nytsamlegast hefði verið að þjappa búunum saman á tiltölulega fáa staði við sjávarsíðuna, þar sem mest fellur til af ódýru og hentugu refafóðri.

Byggðahugsjón bændastjóranna í Reykjavík réð því hins vegar, að á kostnað skattgreiðenda voru settar upp ellefu fóðurstöðvar víðs vegar um land og refabú stofnuð inn um alla dali. Fóðurframleiðslan verður því dýrari en ella og flutningskostnaðurinn miklu dýrari.

Sem gæludýr stjórnmálanna fékk refaræktin stofnkostnaðinn að mestu greiddan af almannafé. Það leiddi til offjárfestingar, sem er gamalkunnugt fyrirbæri í vinnslustöðvum búvöru og hefðbundnum landbúnaði. Afborganir af ódýrum lánum eru að sliga refabændur.

Ofan á óhóflegan fjárfestingar- og flutningskostnað bætist síðan herkostnaður óðagotsins. Á skömmum tíma hefur refafjölgunarþörfin þynnt stofninn, því að menn hafa ekki haft ráðrúm til að setja aðeins beztu dýrin á. Viðkoman er því minni en hjá erlendum keppinautum.

Allt væri þetta í hefðbundnu lagi, ef ríkið keypti skinnin á útreiknuðu tilkostnaðarverði fyrir fé skattborgara. En sérhvert þessara atriða gerir gæfumuninn, þegar uppboðsmarkaður ákveður óbeint, að finnski bóndinn græði, en hinn íslenzki fari á hausinn.

Nú sjá bændastjórar, að láglauna-embættismönnum gengur illa að leika hlutverk áhættu-iðnrekenda á markaðsvelli. Skattborgarar greiða hina síðbúnu uppgötvun.

Jónas Kristjánsson

DV