Þeir vilja skipuleggja plastið

Greinar

Erlendis auglýsa margar verzlanir, að þær gefi staðgreiðsluafslátt, sé greitt í reiðufé. Önnur fyrirtæki auglýsa, að krítarkortahafar fái staðgreiðsluafslátt. Kaupmenn ráða, hvorum kostinum þeir stuðla að og viðskiptamenn ráða, hvar þeir verzla.

Nokkuð fer eftir tegundum viðskipta, hver er staða greiðslukorta í útlöndum. Bandarískir kaupmenn, sem sérhæfa sig í ódýrum afsláttarvörum, kjósa sumir hverjir peningaseðla og hækka vöruverðið, þegar greitt er með plasti, ef það er þá hægt.

Ýmsir kæra sig ekki um, að nafn þeirra og númer tengist sumum tegundum viðskipta. Allir, sem stunda ljósfælin viðskipti, nota eingöngu peningaseðla, svo að forvitnir geti ekki síðar séð, hver greiddi hverjum hvenær hvaða fjárupphæð.

Þetta síðasta stuðlar svo aftur á móti að notkun krítarkorta, þegar trausts er krafist í viðskiptum, til dæmis þegar viðskiptamanni er trúað fyrir verðmæti bíls, sem tekinn er á leigu. Algengt er, að slíkir bílar fáist aðeins leigðir gegn framvísun plastkorts.

Þegar senda þarf vöru langar leiðir, til dæmis tímarit í áskrift, þykir mörgum seljendum töluvert hald í að fá senda undirritaða pöntun með skrásettu númeri greiðslukorts, jafnvel þótt ekki sé ástæða til að taka afrit af korti á hefðbundinn hátt.

Sameiginlegt með öllum þessum dæmum er, að seljandi og kaupandi ákveða, hvaða greiðsluháttur hentar þeim bezt. Enginn stóri bróðir ákveður fyrir þá, hvernig gera skuli, hvorki einokunarsamtök né ríkið sjálft. Slíkt er hins vegar gert hér á landi.

Fyrir helgina skrifuðu ferðaskrifstofurnar og krítarkortafyrirtækin á Íslandi undir samning um að láta kortafólk borga 5% meira en aðra. Þannig eru aðilarnir, sem einoka markaði ferða og korta, farnir að hafa með sér hættulegt samráð um verð.

Alvarlegri eru hugmyndir stjórnmálamanna og embættismanna í viðskiptaráðuneytinu um að skylda kaupmenn til að taka seðlaviðskipti fram yfir kortaviðskipti með því að þvinga þá til að veita sérstakan staðgreiðsluafslátt út á peningaseðla.

Hingað til hafa krítarkortin fengið að finna sér sess í þjóðfélaginu án mikilla afskipta ríkisins, alveg eins og verðbréfamarkaður hefur byrjað að dafna án þess að stjórnmálamenn og embættismenn hafi sér til máttar og dýrðar smíðað um hann lög og reglugerðir.

Það er hins vegar hluti af náttúru þessara valdastétta, einkum þegar þær koma saman í ráðuneytum, að telja sig vita betur en reynslan, hvernig skuli haga ýmsum samskiptum í þjóðfélaginu. Þess vegna er framleidd skæðadrífa af lögum og reglugerðum.

Stjórnmálamenn og embættismenn öðlast meiri völd við að skipuleggja þjóðfélagið sem mest. Embættismenn verða stjórar fjölmennra eftirlitsdeilda hins opinbera. Stjórnmálamenn kaupa sér atkvæði út á undanþágur og aðgang að ódýru lánsfé.

Með opinberum úrskurði um eins konar sektir fyrir notkun krítarkorta í staðgreiðsluviðskiptum er ríkið að leggja drög að útþenslu báknsins um eina stjórnardeild, sem fylgist með því, að kaupmenn og neytendur fari eftir óþörfum lögum og reglugerðum.

Embættis- og stjórnmálamenn eins og viðskiptaráðherra virðast ekki vilja sjá, að skipulag að ofan er yfirleitt óþarft og oft beinlínis skaðlegt.

Jónas Kristjánsson

DV