Öfund fylgir lítil reisn

Greinar

Ríkisstjórnin hefði betur tekið boði Sovétríkjanna til forseta Íslands um að koma í opinbera heimsókn um næstu mánaðamót. Rökin gegn tímasetningu boðsins eru að verulegu leyti fyrirsláttur, því að með sæmilegum vilja hefði verið hægt að þola þennan nauma tíma.

Hið eina óþægilega við tímann er, að hann rekst á forsætis- og utanríkisráðherrafund ríkja Atlantshafsbandalagsins. Utanríkisráðherra hefði því líklega orðið að hraða sér vestur í miðri forsetaheimsókn og annar ráðherra orðið að taka við í föruneyti forsetans.

Hugsanlegt er, að skörun forsetaheimsóknar og Natófundar hefði getað orðið nytsamleg. Til stóð, að Gorbatsjov Sovétleiðtogi hitti forseta Íslands og utanríkisráðherra 29. febrúar. Það hefði verið hentugt tækifæri til að biðja Steingrím fyrir skilaboð til vesturs.

Heimsfriðurinn stendur að vísu ekki og fellur með einum skilaboðum frá Sovétríkjunum til ríkja Atlantshafsbandalagsins. Hins vegar er mikilvægt, að næg tækifæri séu til slíkra skilaboða, ekki sízt þegar heimsveldin stíga sátta- og slökunardans, svo sem nú er.

Eðlilegt er, að fólki detti í hug öfund, þegar forsætisráðherra og ráðherrar Alþýðuflokksins beita fyrirsláttarrökum til að koma í veg fyrir, að utanríkisráðherra geti baðað sig í sviðsljósi ráðherra Atlantshafsbandalagsins, beint ofan í heimsókn til Gorbatsjovs í Kreml.

Samkvæmt öfundarkenningunni hafa hinir heimasitjandi ráðherrar líka áhyggjur af, að ferðin til Kremlar mundi verða notuð til að lýsa yfir samkomulagi um verð á ullarvörum og einhverju slíku, sem hefur lengi verið alfa og ómega samskipta okkar við Sovétríkin.

Það styður kenninguna, að Steingrímur Hermannsson hefur í vaxandi mæli leikið einleik í ríkisstjórninni sem eins konar landsfaðir í sumarfríi, án þátttöku og ábyrgðar í umdeildum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Margir telja hann ekki eiga skilið meira sólskin.

Ljóst mátti vera, að ákvörðun um að meina utanríkisráðherra að fara til Kremlar mundi magna grunsemdir um, að öfundin og reiðin í garð Steingríms væri á svo háu stigi, að ekki mætti einu sinni fá út á ferðalagið frambærilegt ullarverð og góða kveðju til Nató.

Ennfremur mátti ljóst vera, að höfnun boðs með þessari tímasetningu mundi draga embætti forseta Íslands inn í ágreining, sem fólk úti í bæ kallar ráðherrapóker. Með hliðsjón af þessu öllu hefði verið skynsamlegt að velja ekki fyrirsláttarrökin gegn Kremlarferðinni.

Sem dæmi um fyrirsláttareðli rakanna gegn ferðinni er, að forsætisráðherra og Morgunblaðið leggja feiknarlega áherzlu á, að utanríkisráðherra hafi lagt fram bókun sína gegn niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í málinu eftir ráðherrafundinn, en ekki á honum sjálfum.

Utanríkisráðherra hefur svarað í sömu mynt og sagzt hafa lagt fram bókunina á fundinum. Ekki skiptir miklu, nema ef til vill lögfræðilega, hvað rétt er í málinu. Ljóst er hins vegar, að verið er að gera hliðaratriði, lögfræðilegan orðhengilshátt, að meginatriði.

Ólíklegt er, að forsætisráðherra og ráðherrar Alþýðuflokksins auki dræmar vinsældir sínar með að skaða hagsmuni Íslands og friðsamlegrar sambúðar í heiminum og draga forsetaembættið í pókerinn. Ef tugta þarf utanríkisráðherra, á að velja hentugra tækifæri.

Enn einu sinni hefur atvik orðið til að efla þá skoðun, að ráðherrarnir séu margir hverjir of litlir karlar og að ríkisstjórnina í heild skorti þá reisn, sem þarf.

Jónas Kristjánsson

DV