Fleira er dýrt en feitt kjöt

Greinar

Þegar nýir menn koma til skjalanna í áróðursstofnunum landbúnaðar svo sem á tíu ára fresti, finnst þeim snjallt til varnar að benda á, að fleira sé dýrt en feitt kjöt, til dæmis Alþýðublaðið, ef verð á grammi af því sé borið saman við verð á grammi af útlendu dagblaði.

Þessi sjaldséði samanburður er kærkominn, því að hann kemst nær kjarnanum en flest annað, sem frá samtökum landbúnaðarins kemur. Samanburðurinn leiðir nefnilega athyglina að þeirri hlið landbúnaðarvandans, sem sjaldan er skoðuð, innflutningsbanninu.

Við höfum leyfi til að kaupa hvaða útlend dagblöð sem er og án þess að þau kaup séu tolluð eða sköttuð sérstaklega. Við getum, ef við viljum, tekið ódýrt gramm af Politiken eða New York Times fram yfir dýrt gramm af Alþýðublaðinu, nákvæmlega eins og okkur þóknast.

Ef eitthvað selzt af Alþýðublaðinu, sem einn áróðursfulltrúa landbúnaðarins telur mjög dýrt, stafar það væntanlega af, að blaðið þjónar einhverjum sérstökum þörfum kaupandans. Hann getur valið milli þess og margra annarra innlendra og útlendra dagblaða.

Þetta er svipað því, að neytendur gætu tekið rosalega dýrt íslenzkt smjör fram yfir tíu króna smjör frá Bandaríkjunum eða Evrópubandalaginu, af því að þeir sjálfir teldu það henta sér, en ekki af því að landeigendur hafi fengið stjórnvöld til að banna honum útlenda smjörið.

Innflutningsbannið er einmitt versti þáttur landbúnaðarstefnu stjórnmálaflokkanna og meirihluta þjóðarinnar. Það kemur í veg fyrir, að neytendur geti magnað kaupmátt sinn með því að velja frá útlöndum ódýrar afurðir, sem mundu einmitt henta láglaunafólki.

Hitt er líka alvarlegt, en fær þó aðeins önnur skammarverðlaun, að ríkið skuli borga sex milljarða árlega til að beina neyzlunni frá ódýrum matvælum til hinna dýru afurða landbúnaðarins. Það er hliðstætt þeim milljónum, sem ríkið ver til að greiða niður Alþýðublaðið.

Heppilegast væri tollfrjálst innflutningsfrelsi, samfara afnámi fjárhagslegra afskipta ríkisins, hvort sem er af Alþýðublaði eða smjörstykki. Þá þarf ekki lengur að ræða, hvað fólk vill eða hvað á að leyfa því, heldur fær það sjálft að ákveða, hvaða vöru það notar.

DV er ekki að væla um, að markaður sé lítill hjá 250.000 manna þjóð og að erfitt sé að halda úti íslenzkri tungu. Blaðið biður hvorki um ríkisstyrki né innflutningsbann dagblaða. Eins og aðrir seljendur telur blaðið eðlilegt, að kaupendur ráði, hvort blaðið sé gefið út.

Sömu reisn á íslenzki landbúnaðurinn að hafa. Hann á að hafna innflutningsbanni og ríkisstyrkjum og láta reyna á, hve mikið neytendur vilja kaupa af svokölluðu fjallalambi og á hvaða verði. Í ljós kann að koma, að sumir séu tilbúnir að greiða margfalt verð fyrir það.

Íslendingar eiga að hafa borgaralegan rétt til að velja milli styrkjalauss Alþýðublaðs og ótollaðs Politiken. Og þeir eiga líka að hafa borgarlegan rétt til að velja milli styrkjalauss fjallalambs annars vegar og hvers konar hliðstæðrar, ótollaðrar vöru frá útlöndum hins vegar.

Þá fyrst hefðu áróðursstofnanir landbúnaðarins siðferðilegan rétt á að birta landslýð upplýsingar um, hversu miklu ódýrara sé að kaupa helgarútgáfu New York Times en Alþýðublaðið, alveg eins og blöðin hafa siðferðilegan rétt á að birta slíkt um búvöruna.

Án banna og millifærslna á fólk rétt á að fá að velja sér vöru, hvort sem það er innlent eða útlent dagblað, innlend eða útlend afurð landbúnaðar. Það er kjarninn.

Jónas Kristjánsson

DV