Orðaslæður gefast illa

Greinar

Rétt eins og ríkisstjórnin mun snarlega lækka hina formlegu skráningu á gengi krónunnar, þótt hún haldi öðru fram, er hún einnig að hækka raunvextina, þótt hún þykist vera að gera annað. Hvort tveggja fer eftir blekkingarhefð, sem hér er talin til stjórnvizku.

Í sjónhverfingum af þessu tagi er jafnan talið brýnt að nefna hlutina aldrei réttum nöfnum. Nýjasta vaxtahækkunin heitir til dæmis lántökuskattur. Ríkisstjórnin er að undirbúa slíkan skatt á erlend lán til að gera vexti þeirra jafnháa hinum háu vöxtum af innlendum lánum.

Með gjaldinu er girt fyrir, að lántakendur geti vikið sér undan háum vöxtum í landinu með því að nýta sér lægri vexti í útlöndum. Þetta jafngildir hækkun heildarvaxta lántakenda um nokkur hundruð milljónir króna á ári, hugsanlega nokkuð yfir heilan milljarð króna.

Um leið nælir ríkið sér í sömu peningaupphæð án þess að kalla það nýja skattheimtu. Ríkið eykur veltu sína á einfaldan hátt, um leið og það hækkar heildarupphæð þeirra vaxta, sem greiddir eru í landinu. Svona vinnubrögð þykja afar sniðug í stjórnmálunum.

Sennilega er þessi vaxtahækkun og þessi skattahækkun gagnleg ráðstöfun, alveg eins og gengislækkunin er gagnleg. Hins vegar má efast um, að nauðsynlegt sé að fela slíkar ráðstafanir undir fölskum nöfnum, þegar málsaðilar og almenningur vita í rauninni betur.

Seðlabankinn hefur verið einna duglegastur opinberra stofnana við að slá ryki í augu fólks. Hann fann á sínum tíma upp á að nota orðið gengisbreytingu yfir gengislækkun. Það er samkvæmt reglunni, að orð eigi að gefa sem minnstar upplýsingar um innihaldið.

Orðið gengisbreyting er lævísara en fræg orð stjórnmálamanns um eina gengislækkunina, að hún væri ekki gengislækkun, heldur hratt gengissig í einu stökki. Seðlabankinn var þó snjallastur í orðaslæðum, þegar hann tók upp á að nota orðið frystingu um sparifé.

Orðið frysting gaf í skyn, að peningar væru læstir inni í Seðlabanka til að minnka verðbólgu. Í rauninni voru þessir peningar teknir af hinum tiltölulega heiðarlega lánavettvangi bankanna og notaðir í ósæmileg gæluverkefni stjórnvalda, með milligöngu Seðlabanka.

Einnig hafa fastmótaðar klisjur, sem eru endurteknar í síbylju, öðlast sess sem mikilvægur þáttur í að þyrla upp ryki til að hylja raunveruleikann. Ein klisjan, sem heyrist daglega um þessar mundir, er setningin: “Gengislækkun leysir ein út af fyrir sig engan vanda”.

Þessi klisja hefur til dæmis ruglað ýmsa frystihúsamenn svo í ríminu, að þeir telja brýnna en gengislækkun að fá aðgerðir stjórnvalda til að koma í veg fyrir, að fólk fái gott kaup í þjónustu á Reykjavíkursvæðinu, svo að það hlaupi ekki frá færiböndum fiskvinnslunnar.

Með alls konar rugli af þessu tagi er reynt að viðhalda þeirri blekkingu, að stjórnvöld geti leyft eða bannað efnahagslögmál, sem minna á náttúrulögmál. Tilraunir til slíks hafa alltaf skaðað þjóðarhag og munu halda áfram að gera það. Þær skaða þjóðarhag núna.

Skyld þessu er hefðin að framleiða pappír, þegar peningar eru ekki til. Löngum hefur til dæmis verið reynt að leysa húsnæðisskortinn með nýjum lögum og reglum um húsnæðislán, verkamannabústaði og nú síðast kaupleigu, eins og þannig sé unnt að búa til fé úr engu.

Auðveldara væri að stjórna landinu til lengdar, ef ráðmenn vildu hverju sinni taka á sig óþægindin af að neita sér um að bregða slæðu yfir raunveruleikann.

Jónas Kristjánsson

DV