Frá skálanum í Áfangagili í skálana í Landmannahelli, stundum kölluð Landmannaleið.
Ein fegursta reiðleið landsins, næst á eftir leiðinni til austurs frá Landmannahelli. Hér eru stök fjöll, miklir eyðisandar og hálendismóar milli Hekluhrauna í suðri og fjallshlíða í norðri. Kringla er gróið svæði, umgirt fjöllum, gamall vatnsbotn. Að norðan eru Sauðleysur, Herbjarnarfell, Löðmundur, Lifrarfjöll og Dómadalsháls. Suðurfjöllin eru Krókagiljabrún, Rauðufossafjöll og Mógilshöfðar. Á miðri Kringlu eru fellin Sáta, Langsáta og Sátubarn gegnt Landmannahelli. Sléttan er í 600 m hæð og fjöllin umhverfis í 1000 m hæð. Löðmundarvatn er við rætur Löðmundar, svipmesta fjallsins á þessu landssvæði.
Förum frá Áfangagili í 310 metra hæð út gilið til norðvesturs og síðan til suðvesturs meðfram Öldunni. Fylgjum fyrst jeppaslóð, en beygjum síðan upp hlíðina til suðurs, þar sem við komum á Landmannaleið. Henni fylgjum við í stórum dráttum á leiðarenda. Förum fyrst til austurs, norðan við Skjaldbreið, um Klofninga sunnan við Valahnjúka. Síðan norðan við Krókagiljabrúnir og suðvestan við Sauðleysur. Þá förum við til suðausturs um Svalaskarð, þar sem við víkjum til norðurs af jeppaslóðinni. Við förum yfir Helliskvísl og beint til austurs og síðan til norðausturs undir Sauðleysum, þar sem við komum aftur á slóðina. Við erum komin á jaðar sléttu, sem heitir Kringla. Áfram höldum við í sömu átt unz við komum að skálunum í Landmannahelli, í 600 metra hæð, norðan Sátu og sunnan Hellisfjalls.
25,8 km
Rangárvallasýsla
Skálar:
Áfangagil: N64 06.051 W19 34.499.
Landmannahellir : N64 03.195 W19 13.977.
Jeppafært
Nálægir ferlar: Hraunin, Rangárbotnar, Fjallabak nyrðra, Rauðkembingar, Krakatindur, Reykjadalir, Landmannaleið.
Nálægar leiðir: Valafell.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson