Hvorki váleg né brýn

Greinar

Hvorki er aðild að Evrópubandalaginu Íslendingum eins váleg né eins brýn og stjórnmálamenn vilja vera láta. Umræða þeirra um bandalagið er þó gagnleg og mætti vera meiri, því að hún beinir athyglinni að framtíð okkar í samfélagi og viðskiptum þjóða heims.

Viturlegast er að hafa svigrúm og eiga ýmissa kosta völ. Við þurfum að efla markaði okkar í Japan og öðrum nýríkum löndum á þeim slóðum, meðal annars með því að opna þar viðskiptaskrifstofu, jafnvel sendiráð. Þar er markaðurinn, sem stækkar hraðast nú um hríð.

Til að draga úr áhættu þurfum við að leggja jafna áherzlu á þrjú auðug markaðssvæði, Norður-Ameríku, þar sem Bandaríkin eru í þungamiðju, Vestur-Evrópu, þar sem Evrópubandalagið er í þungamiðju, og Suðaustur-Asíu, þar sem Japan er í þungamiðju.

Um þessar mundir er Evrópubandalagið okkur veigamesta horn þríhyrningsins. Rúmur helmingur utanríkisviðskipta okkar er við það. Engar horfur eru á mikilli breytingu á hlutfallinu á allra næstu árum. Hins vegar er ýmissa veðra von, þegar líður á næsta áratug.

Vaxandi horfur eru á, að ríki Fríverzlunarsamtakanna renni eitt af öðru inn í Evrópubandalagið og samtökin leysist smám saman upp. Alvarlegust fyrir okkur verður aðild Norðmanna að bandalaginu, því að þeir eru helzti keppinautur okkar í sölu fiskafurða.

Mikilvægt er að nota fjölþjóðavettvang, sem við höfum aðgang að, til að vinna að sem mestu frelsi í viðskiptum með sjávarfang. Þess vegna er rétt að hamra í Norðurlandaráði og Fríverzlunarsamtökunum á Svíum fyrir andstöðu þeirra, svo sem raunar hefur verið gert.

Þótt Fríverzlunarsamtökin séu komin á hrörnunaraldur, er mikilvægt, að þau geri frjálsa fiskverzlun að stefnumáli, því að slíkar yfirlýsingar hafa töluvert fordæmisgildi. Reynslan sýnir, að unnt er að beita þeim í viðræðum við aðra, til dæmis Evrópubandalagið.

Samningur okkar við bandalagið og tilheyrandi bókanir hafa reynzt okkur bærilega, þótt við viljum gjarna aukið svigrúm fyrir saltfisk. Við eigum að leggja höfuðáherzlu á, að ekki sé hróflað við þessari hefð, nema til að draga úr hindrunum í vegi fiskverzlunar.

Sem smáþjóð í heimsins ólgusjó er heppilegast fyrir okkur að bindast sem minnst samtökum, sem krefjast afsals á hluta fullveldis, svo sem Evrópubandalagið gerir. Okkur mun ganga betur sem fátækum herrum í eigin landi en sem ríkum þrælum útlendra embættismanna.

Til þess að sigla slíkan sjálfstæðissjó, þurfum við að læra af öðrum smáþjóðum, sem hafa snúið smæðinni sér í hag. Við þurfum til dæmis að skapa hér fríhöfn fyrir vörur og þjónustu, einkum fjármagnsflutninga. Og við þurfum að gera frímerkjaútgáfu að gróðalind.

Svisslendingar og Luxemborgarar hafa sýnt okkur, að unnt er að hafa góðar tekjur af fjármagnsflutningum, en þá þurfum við að hleypa inn erlendum bönkum og sjóðum. San Marinómenn og Lichtensteinar hafa sýnt okkur, að unnt er að gera póstþjónustu að gullnámu.

Ef þróunin þvingar okkur til aðildar að Evrópubandalaginu, þurfum við ekki að örvænta, því að öðrum smáþjóðum hefur vegnað vel í fangi þess. Við getum til dæmis komið í veg fyrir það, sem margir óttast, að útlendingar gleypi gullkistuna okkar, sjávarútveginn.

Við sláum bara þjóðareign á fiskimiðin, hefjum uppboð á veiðileyfum og tryggjum okkur gegn þeim, er telja sér trú um, að þeir geti keppt við okkur í fiskveiðum.

Jónas Kristjánsson

DV