Evrópuaðild er hugsanleg

Greinar

Evrópubandalagið er ágæt röksemd með þjóðareign íslenzkra fiskimiða og sölu veiðileyfa. Með því að leggja niður óskapnað kvótakerfisins og fara að bjóða út veiðar í hinni takmörkuðu auðlind, sem fiskistofnarnir eru, treystum við samningsstöðu okkar gegn bandalaginu.

Í leiðara DV á fimmtudaginn var rökstutt, að við þurfum ekki að einblína á Evrópubandalagið, kosti þess og galla, heldur leggja áherzlu á að halda einnig opnum viðskiptaleiðum til Vesturheims og Austur-Asíu til þess að geta hagað seglum eftir vindi í milliríkjaviðskiptum.

Evrópubandalagið er samt álitlegur kostur, því að það er nálægur markaður, sem spannar nú þegar rúmlega helming utanríkisviðskipta okkar. Aðild að því verður áleitnari með hverju ríkinu, sem flytur sig um set úr Fríverzlunarsamtökunum yfir í bandalagið.

Við höfum gert við Evrópubandalagið nothæfan samning, sem ekki rennur út, nema menn hafi sérstaklega fyrir að segja honum upp. Við getum reynt að víkka fisksölufrelsið með beinum þrýstingi og einnig óbeinum, á vegum Fríverzlunarsamtakanna og Norðurlandaráðs.

Ekki er samt hægt að neita, að auknar líkur á aðild Noregs að bandalaginu setja okkur í nokkurn vanda vegna versnandi samkeppnisaðstöðu gagnvart Norðmönnum, ef þeir verða innan bandalagsins, en við utan. Þetta hlýtur að endurvekja hugmyndir um aðild okkar.

Hingað til hafa menn staðnæmzt við kröfur Evrópubandalagsins um gagnkvæma aðild að auðlindum. Íslendingar hafa réttilega verið sammála um, að fiskimiðin væru einmitt gulleggjahænan, sem við mættum ekki selja í hendur öðrum, heldur halda í eigin höndum.

Aðild að auðlind jafngildir ekki ókeypis aðild. Ef íslenzka ríkið færi að bjóða upp leyfi til fiskveiða og við værum innan bandalagsins, gætu erlendir aðilar að vísu reynt að bjóða. Ef þeir væru ríkisstyrktir, mundi boðunum vera hafnað eða lagður á þau samsvarandi skattur.

Útgerð í löndum Evrópubandalagsins er ríkisstyrkt á borð við landbúnað og getur ekki keppt við íslenzka útgerð á jafnréttisgrunni. Þess vegna mundu veiðileyfin lenda hjá íslenzkum aðilum og þjóðfélag okkar hafa tekjurnar af hvoru tveggja, veiðunum og leyfunum.

Önnur hindrun í vegi aðildar Íslands að Evrópubandalaginu er hinn frjálsi flutningur starfsfólks milli landa. Ekkert bendir til, að útlendingar muni sækjast eftir að setjast að í hráslaganum hjá okkur, þótt lífskjör séu góð. Þeir hafa hingað til ekki verið áfjáðir.

Að vísu erum við svo fámennir, að við getum ekki leyft okkur að taka neina áhættu á þessu sviði. Við hljót um að skammta aðgang að ríkisborgararétti nógu þröngt til að laga nýja borgara að tungu og háttum okkar. Þetta er án efa alvarlegasta hindrun bandalagsaðildar okkar.

Frjálsi fjármagnsmarkaðurinn ætti hins vegar að vera lítil hindrun í vegi aðildar, ef við lítum hann réttum augum. Við ættum að fagna því, að erlent hlutafé leysi erlent lánsfé af hólmi, enda erum við farnir að auka erlendar skuldir okkar um tíu milljarða árlega.

Við ættum einmitt að fylgja fordæmi Svisslendinga og Lúxemborgara og nota smæð okkar til að freista erlendra banka, sjóða og annarra stofnana, sem annast varðveizlu og flutning peninga, til að koma sér upp útibúi eða aðalstöðvum hér á eyju í miðju Atlantshafi.

Að öllu samanlögðu á frelsi í fiskveiðum, flutningi starfsfólks og í fjármálum ekki að vera ókleif hindrun í vegi aðildarviðræðna okkar við Evrópubandalagið.

Jónas Kristjánsson

DV