Frá þjóðvegi 47 við Lambhaga í Leirársveit um Skarðsheiði að Skeljabrekku í Andakíl.
Þorleifur Þórðarson í Görðum og Snorri Sturluson fóru um Skarðsheiði 1237 með nærri 400 manna lið á leið Þorleifs til Bæjarbardaga í Borgarfirði við Sturlu Sighvatsson. Tvær skessur bjuggu í hömrum fyrir vestan Miðfitjar. Þeim þótti notalegt að sitja á Miðfitjahól á kletti sem heitir Skessusæti. Lengi var ekki hægt að fara Skarðsheiðarveg fyrir þeim. Þær gerðu mönnum og skepnum ýmsar skráveifur. Eitt sinn átti bóndinn á Grund í Skorradal erindi suður fyrir Skarðsheiði. Heiðina sjálfa fór hann til baka. Á leiðinni hitti hann skessuna, en ekki segir af viðureign þeirra, nema hvað um kvöldið kom bóndi heim og dró á eftir sér dauða hryssu sem hann hafði riðið að heiman. Mjög var af honum dregið og lagðist hann í rúmið. Viku seinna var hann dáinn.
Förum frá Lambhaga norður yfir Laxá og á þjóðveg 502. Austur eftir þjóðveginum hálfan annan kílómetra og síðan norður um Neðra-Skarð að Breiðubrekku. Þaðan upp í Heiðarskarð milli Skarðsheiðar og Snóksfjalls. Handan Snóksfjalls er önnur leið eftir línuvegi upp í skarðið. Þessar leiðir sameinast suðvestan við Rauðahnjúk í 500 metra hæð, þar sem heita Skessubrunnar. Við höldum áfram leiðina norður Miðfitjar á Miðfitjahól, þar sem er Skessusæti. Förum milli Skessuhorns í Skarðsheiði að austan og Svörtutinda að vestan. Síðan áfram norðaustur og niður um Langahrygg að þjóðvegi 507 um Andakíl. Þaðan er stutt leið með vegi að Skeljabrekku.
22,2 km
Borgarfjörður-Mýrar
Nálægar leiðir: Leirárdalur, Katlavegur, Grunnafjörður, Hestháls.
Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH