Vorhreinsun mannréttinda

Greinar

Margs þarf að gæta, þegar lögð verður síðasta hönd á frumvarpið, sem á að koma í veg fyrir, að mannréttindadómstóllinn í Strasbourg smækki Ísland í máli Jóns Kristinssonar á Akureyri. Jafnframt þarf að hraða frumvarpinu, því að skammt er eftir af þingi vetrarins.

Hreinsa þarf frumvarpið af orðalaginu: “Ákveðið skal með reglugerð…” og “Dómsmálaráðherra er heimilt, að…” Slíkt afsal löggjafarvalds hefur tíðkazt allt of lengi í lögum, sem samþykkt hafa verið á þreyttu Alþingi og eru því til sífelldrar minnkunar og ævarandi háðungar.

Á síðustu misserum hefur oft verið bent á þetta afsalshneyksli, sem hefur farið vaxandi og náð hámarki í nýjustu fiskveiðikvótalögunum. Tímabært er orðið að stöðva hliðrun löggjafarvaldsins til ráðherrareglugerða og ráðherraúrskurða og að nota einmitt þetta tækifæri.

Ráðherrar eiga að fara með framkvæmdavald og ekki löggjafarvald. Enn síður eiga þeir að fara með þriðja valdið, dómsvaldið, svo sem sjá má merki um í drögum að frumvarpi til laga um skipan dómstóla og ríkisumboða, er framleidd hafa verið í ýmsum útgáfum í vetur.

Frumvarpið er einmitt samið til að sýna mannréttindadómstólnum, að Ísland virði þrískiptingu valdsins, sem er hornsteinn vestræns samfélags. Því er mjög gróft að fylla einmitt það frumvarp af endalausum þráðum framkvæmdavaldsins til dómsvalds og löggjafarvalds.

Annað atriði, sem ber að varast, er, að hagsmunaaðilar nái að hafa of mikil áhrif á frumvarpið. Til dæmis er óþarfi, að fulltrúar við embætti sýslumanna og bæjarfógeta noti tækifæri kerfisbreytingarinnar til að búa til fleiri stöður hjá kerfinu á kostnað skattborgaranna.

Drögin gera af skynsemi ráð fyrir, að fimm embætti sýslumanna og bæjarfógeta verði lögð niður, en í stað inn stofnuð sjö embætti héraðsdómara. Hagsmunaðilarnir vilja stofna fleiri embætti. Þeir fela græðgina að baki hugsjónarinnar um jafnvægi í byggð landsins.

Margt má gera til að hindra, að kerfisbreytingin færi sýslumenn og héraðsdómara fjær fólki í strjálbýli. Þeir geta haft gagnkvæma vinnuaðstöðu og farið milli kaupstaða, til dæmis til að halda dómþing, án þess þó að það þurfi að kosta fjárfestingu í auknu húsnæði.

Eðlilegt er, að hinir nýju héraðsdómarar hafi aðsetur á þeim stöðum, þar sem embætti bæjarfógeta eða sýslu manna verða lögð niður. Þannig missa í rauninni engir kaupstaðir frá sér embætti og þannig fær ríkið húsnæði og aðstöðu fyrir hina nýju embættismenn.

Þriðja atriðið, sem þarf að gæta, er að koma í veg fyrir pólitíska tortryggni með því að ákveða, að núverandi sýslumenn og bæjarfógetar, sem verða lagðir niður í því hlutverki, verði sjálfkrafa skipaðir héraðsdómarar, nema aðrir sýslumenn og fógetar vilji skipta við þá.

Hingað til hefur ráðherravald yfirleitt verið pólitískt misnotað við skipun í þessi embætti. Eðlilegt er, að menn fyllist tortryggni, þegar pólitískur ráðherra á í einu vetfangi að fá vald til að skipa í fjölmargar stöður héraðsdómara. Þessari tortryggni þarf að eyða strax.

Mikilvægt er, að strax eftir páska verði lagt fram nothæft frumvarp til laga um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds í héraði, með tvískiptingu þess í embætti héraðsdómara og sýslumanna. Ekki er þó nauðsynlegt, að frumvarpið verði að lögum fyrir vorið.

Kosturinn við aðild okkar að mannréttindadómstólnum í Strasbourg er, að hún knýr okkur til að gera ærlega og síðbúna vorhreinsun í okkar eigin mannréttindum.

Jónas Kristjánsson

DV