Faðmlög kæfa gæludýr

Greinar

Víða í Bandaríkjunum er notuð sérhæfð prentvél, sem er svo dýr, að einungis geta rekið hana þau fyrirtæki, sem treysta sér til að keyra hana allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, og nota til þess starfslið á fjórum vöktum. Þrjár vaktir duga ekki til að greiða niður vélina.

Hér á Íslandi er hins vegar allt fullt af dýrum vélum, sem sjaldnast eru í gangi. Til dæmis eru sagðar hér vélar, sem geti annað þörfum alls mannkyns fyrir kantlímingar og gluggatjaldatappa, svo ekki sé minnst á allan vélakostinn í greinum, sem hafa forgang að lánsfé.

Í fréttum DV að undanförnu hafa verið rakin dæmi um offjárfestingu í atvinnulífinu. Þótt ekki hafi allt verið tínt til, náði heildarupphæð hennar rúmum sextíu milljörðum króna. Gera má ráð fyrir, að árlega kosti þjóðina sex milljarða að standa undir óþarfanum.

Þessar tölur benda til, að offjárfestingin sé álíka viðamikið vandamál og hinn hefðbundni landbúnaður, sem kostar ríkið einmitt líka sex milljarða króna á hverju ári. Hvor sex milljarðurinn út af fyrir sig jafngildir öllum tekjuskattinum, sem þjóðin greiðir ríkinu árlega.

Ef við hefðum hvorki búið við forgang að ódýrum lánum né ríkisrekstur hefðbundins landbúnaðar á undanförnum árum, gætum við ekki aðeins verið laus við tekjuskatt, heldur hefðum aðra eins upphæð til ráðstöfunar til viðbótar til að bæta lífskjör okkar.

Skýringin á offjárfestingunni er í mörgum tilvikum, en ekki öllum, hin sama og á hinum hefðbundna landbúnaði. Stjórnmálakerfið hefur tekið ákveðna þætti atvinnulífsins upp á sína arma og ákveðið, að gæludýrin njóti forgangs að ódýru lánsfé og jafnvel styrkjum.

Ekki græða gæludýrin á atlætinu. Frystihúsin ættu til dæmis ekki í sömu erfiðleikum við að greiða fiskverkunarkonum mannsæmandi laun, ef þau hefðu ekki fengið of frjálsan aðgang að peningum til að kaupa vélar, sem standa meira eða minna ónotaðar í sölunum.

Þorskflökunarvélar íslenzkrar fiskvinnslu gætu afgreitt allan þorskafla okkar á sex dögum og allan ýsu- og ufsaaflann á tveimur dögum til viðbótar. Karfaflökunarvélarnar gætu skilað sínu verki á átján sólarhringum og flatfiskflökunarvélarnar á tíu sólarhringum.

Alkunnugt er, að kvótakerfið í fiskveiðum er notað til að skipta takmörkuðum afla milli allt of margra skipa. Sérfræðingar eru ekki alveg sammála um, hversu mikil offjárfesting er á þessu sviði, en mat þeirra á henni nemur frá fjórðungs og upp í helmings offjárfestingu.

Í landbúnaði er sama sagan. Sláturhúsin geta annað allri slátrun á nítján dögum ársins. Mjólkursamlögin geta annað tvöfaldri mjólkurframleiðslu hið minnsta. Og svo er búið að koma upp kvótakerfi, sem gerir bændum ókleift að nýta fjárfestingu sína að marki.

Í orkuverum er líka búið að festa meiri peninga en við höfum þurft að nota. Annar hverfill Kröfluvirkjunar var aldrei tekinn upp úr kössunum. Framkvæmdir við algerlega óþarfa Blönduvirkjun liggja niðri. Samt er framleiðslugeta orkukerfisins um 10% umfram þörf.

Af ýmsum hugsjónaástæðum, til dæmis vegna byggðastefnu eða vegna misjafnrar virðingarstöðu atvinnugreina, færir stjórnmálakerfið til peninga, sem búa til offjárfestingu, er síðan veldur vandræðum gæludýranna. Þeir, sem njóta faðmlaganna, kafna í þeim.

Ákaflega væri þetta rík þjóð, ef ráðamenn væru ekki alltaf að skipuleggja tilfærslu á peningum til gæluverkefna, sem þeir og þjóðin ímynda sér, að séu brýn.

Jónas Kristjánsson

DV