Guðjón á Sambandið

Greinar

Erlendir fræðimenn hafa vakið athygli á, að formlegt eignarhald skiptir litlu máli í öflugum og grónum fyrirtækjum. Þeir hafa dæmi sín úr hlutafélögum, en gætu þó fengið mun betri dæmi úr samvinnurekstri, þar sem eignarhald er frá upphafi fremur lítt áþreifanlegt.

Hlutafé, sem upphaflega var í eigu fárra manna, dreifist smám saman til erfingja, sem ekki hafa sömu samstarfshagsmuni og upprunalegu eigendurnir. Algengt er, að fjölskyldufyrirtæki séu komin úr ættarhöndum á tímum annarrar kynslóðar frá stofnendum.

Erlendis er algengt, að almennt hlutafjárútboð flýti fyrir þessari þróun. Fyrirtæki í örum vexti þurfa meira fé en þau treystast til að taka að láni eða geta tekið að láni. Afleiðingin verður fljótlega sú, að öflugustu fyrirtækin hafa dreifðan og ósamstæðan eigendahóp að baki.

Komið hefur í ljós, að slík fyrirtæki eru traustari en fjölskyldufyrirtæki, sem gjarna eru undir stjórn óhæfra erfingja, sem hafa fengið stöðu sína í ætternisskjóli. Að fyrirtækjum með dreifðu eignarhaldi ráðast hins vegar forstjórar, sem kunna til verka.

Í útlöndum eru flest stærstu og öflugustu fyrirtækin í eigu nafnleysingja, sem klippa arðmiða og hafa engin áhrif á reksturinn. Hlutafé þeirra fellur meira eða minna dautt á hluthafafundum. Slíka fundi sækja menn, sem eru hallir undir forstjórana og hlýða vilja þeirra.

Mál þróast gjarna á þann veg, að forstjórar stórfyrirtækjanna beita áhrifum sínum til að setja hliðholla menn yfir hlutafjárpakka og fá þá til að mæta á hluthafafundi. Hinir almennu hlutafjáreigendur hafa enga ástæðu til að hópa sig saman gegn stjórn og forstjórum.

Að lokum verður niðurstaðan sú, að fyrirtækjum er stjórnað af forstjórum í bandalagi við stjórnarmenn, sem eru í senn kunningjar og forstjórar í öðrum fyrirtækjum. Forstjórarnir sitja á víxl í stjórnum hver hjá öðrum og mynda sameiginlega peningalega yfirstétt í landinu.

Þessa þróun í átt til forstjóraveldis sjáum við hér á landi í nokkrum stórum fyrirtækjum á borð við Eimskipafélagið, Flugleiðir og einkabankana. Vegna dreifingar hlutafjár gætu þetta kallazt almenningshlutafélög, en almennir hluthafar ráða þar í rauninni engu.

Samband íslenzkra samvinnufélaga er svo langsamlega bezta íslenzka dæmið um, hvernig völd færast frá hinum mörgu og smáu til hins eina og sterka forstjóra. Í tilviki Sambandsins er ekki einu sinni um að ræða, að eigendur sitji úti í bæ og klippi þar hlutafjármiða.

Hinir formlegu eigendur Sambandsins geta ekki bjargað sér undan gjaldþroti með því að bjóða hlutabréf á margfeldisverði, sem endurspeglar heildarstöðu fyrirtækisins. Þeir geta aðeins fengið þann hluta eignarinnar, sem skráður er sem stofnfjársjóðshluti þeirra.

Þannig varð Kaupfélag Svalbarðseyrar gjaldþrota, og þannig eru bændurnir í stjórn þess persónulega komnir á höggstokkinn. Ef kaupfélög halda áfram að fara á hausinn, mun Sambandið hins vegar dafna og þeim mun meira, sem minni verða skyldur þess við strjálbýlið.

Ekki er síður athyglisvert, að nýlega ráðinn forstjóri Sambandsins hefur þegar safnað að sér slíkum völdum, að stjórnarformaður þess og meirihluti stjórnarmanna telja affarasælast að halda friðinn og láta hann ráða ferðinni, þótt deilt sé um, hvaða laun honum beri.

Afdrif þeirra Sambandsmanna, sem tóku þátt í atlögunni að forstjóranum, munu á næstu árum staðfesta kenninguna. Ef einhver á Sambandið, er það Guðjón.

Jónas Kristjánsson

DV