Hreint og tært verð

Greinar

Verðlagsstofnun gæti tekið upp á að bera saman verð málverka. Í niðurstöðunum kæmi sennilega í ljós, að fermetraverðið hjá Jóni frænda væri mun lægra en hjá Kristjáni Davíðssyni. Þetta væri nytsamleg ábending þeim, sem þurfa að klæða bera veggi málverkum.

Í rauninni væri fróðlegt að vita, hvert sé markaðsverð fermetrans hjá ýmsum listmálurum, lífs og liðnum. Verð er alltaf þáttur í mati á vörum og öðrum gæðum. En mat fólks á innihaldinu hlýtur einnig að vera mikilvægt. Það er bara erfiðara að meta innihald gæðanna.

Verðlagsstofnun hefur borið saman verð fermingarmynda hjá ýmsum ljósmyndastofum og komizt að raun um, að það er afar misjafnt. Munurinn var mestur þrefaldur. Þetta eru afar hagnýtar upplýsingar, þótt þær segi ekkert um listrænt innihald fermingarmyndanna.

Ástæðulaust er að gagnrýna Verðlagsstofnun fyrir að skoða eingöngu verðlagið. Hlutverk hennar er að segja fólki, hvernig það geti verzlað á sem hagkvæmastan hátt. Þeir, sem vilja borga meira fyrir það, sem þeir telja vera meiri list, ráða áfram gerðum sínum.

Kannanir Verðlagsstofnunar eru raunar að flestu leyti til fyrirmyndar, sem og annarra þeirra, er hafa fengizt við verkefni af því tagi. Um langan aldur hafa verðkannanir til dæmis verið mikill og vaxandi þáttur í upplýsingamiðlun DV og munu verða það áfram.

Við höfum ekki umtalsverðar áhyggjur af, að innihald kunni að einhverju leyti að vera misjafnt, þannig að samanburður á verði segi ekki alla söguna. Það nægir, að samanburðurinn segi nokkra sögu, sem eigi erindi til þeirra, er hafa lítið fé handa milli.

Hitt er svo líka þarflegt að reyna að bera saman fleira en verðið, þegar það er mögulegt. Í matvöru er til dæmis hægt að skoða efnainnihald. Í sumum tilvikum er fróðlegt að kanna bilanatíðni og viðgerðakostnað. Hér á DV höfum við árvisst kannað bragðgæði páskaeggja.

Æskilegt væri, að Verðlagsstofnun, Neytendasamtökin og aðrir aðilar, sem hafa kannað mál með þessum hætti, reyni að víkka könnunarsviðið frá verðinu einu og láti það ná yfir alla þætti gæðanna, sem fólk sækist eftir, þegar það hyggst verja peningum til einhvers.

Meira að segja er unnt að fá sérfróða menn til að meta listrænt gildi fermingarmynda. Alls staðar er verið að meta listrænt gildi. Dagblöðin eru til dæmis full af greinum, sem meta gæði ritverka, tónleika, leiksýninga, kvikmyndaspóla og jafnvel veitingahúsa.

Margt fleira mætti kanna einstaka sinnum. Það er til dæmis ekki nóg að vita, að nokkrir stórmarkaðir hafi lægra vöruverð en almennt gildir. Við þurfum að vita, hvort strimlarnir, sem við fáum við greiðslukassann, séu í samræmi við vörurnar, er við höfum keypt.

Í erlendum stórmörkuðum eru vörur merktar á sama hátt og gert er hjá Ríkinu í Kringlunni. Á strimlunum er vöruheiti í hverri línu. Við getum því auðveldlega séð, hvort reikningurinn er í samræmi við raunveruleikann. Það getum við hins vegar ekki í stórmörkuðum.

Við kassann er enginn tími til að kanna innihald 50­100 lína strimils. Hann gæti, auk okkar viðskipta, náð yfir viðskipti þess, sem var næstur á undan. Gróði viðskiptavina af lágu vöruverði er fljótur að fara í súginn, ef einstöku sinnum verða mistök af slíku tagi.

Allt slíkt þarf að kanna. Samt hlýtur helzta verkefni Verðlagsstofnunar að vera að kanna hreint og tært verð út af fyrir sig, einnig fermingarmynda og páskaeggja.

Jónas Kristjánsson

DV