Dreift fjölmiðlavald

Greinar

Ef fréttastjóri Ríkissjónvarpsins hefur einhvern tíma verið ráðherraígildi eða þriðji valdamesti maður landsins, eins og haldið hefur verið fram, þá er hann það ekki lengur. Notkun fjölmiðla hefur breytzt á þann veg, að enginn fjölmiðill sameinar lengur mestalla þjóðina.

Áratugum saman gegndi fréttastofa Gufunnar þessu hlutverki. Allur þorri þjóðarinnar vissi hvað hafði verið sagt í helztu fréttatímum hennar. Þegar sjónvarp hóf göngu sína, tók fréttastofa Sjónvarps við hlutverkinu. Allur þorri landsmanna horfði á kvöldfréttir þess.

Fyrstu skrefin í átt til frelsis fjölmiðlunar í lofti hafa þegar eytt þessari stöðu, sem kalla mátti einokun. Skoðanakannanir hafa hvað eftir annað sýnt, að notkun útvarps og sjónvarps hefur ekki aukizt með nýjum fjölmiðlum, heldur hefur notkunin dreifzt á fleiri fjölmiðla.

Þegar sjónvarp kom til skjalanna, datt hlustun vinsælustu útvarpsþáttanna, hádegis- og kvöldfrétta, niður fyrir 50%. Þegar fleiri útvarpsstöðvar komu til sögunnar, fór hlutur þessara fyrri hornsteina niður fyrir 40%. Fréttir Gufunnar eru bara eins og hverjar aðrar fréttir.

Þegar sjónvarpsstöðvarnar urðu tvær, datt heildarnotkun Ríkissjónvarpsins úr 75% í innan við 50% þeirra, sem spurðir hafa verið í skoðanakönnunum. Ákvarðanir á fréttastofu þess eða ritskoðunarhneigð að ofan ráða ekki lengur, hvað þjóðin telur vera í fréttum.

Athyglisvert er, að aukin samkeppni hefur ekki veikt stöðu dagblaðanna, heldur styrkt hana. Morgunblaðið nær samkvæmt skoðanakönnunum lestri 75% þjóðar innar og DV 67%. Þetta eru töluvert hærri tölur en loftfjölmiðlarnir ná og hafa ekki verið vefengdar.

Samkvæmt þessu er Morgunblaðið orðið mest notaði fjölmiðill á Íslandi og DV hinn næstmesti. Ríkissjónvarpið kemur í þriðja sæti, Gufan í fjórða og Stöð 2 í fimmta. Stjarnan, Bylgjan og Rás 2 eru svo á lægra róli, meira að segja rétt neðan við Tímann og Þjóðviljann.

Þessi dreifing fjölmiðlunarvaldsins er að flestu leyti af hinu góða. Ekki er hollt, að á einum stað eða tveimur séu teknar ákvarðanir um, hvað sé í fréttum og hvað ekki. Bezt er, að það sé ákveðið í samkeppni margra fjölmiðla, svo sem nú er orðið á fréttamarkaðnum.

Þegar svo er komið, geta stjórnmálamenn, útvarpsráðsmenn og aðrir sérfræðingar í ritskoðun frétta hætt að eyða tíma í iðju, sem ekki kemur að gagni. Ritskoðun á einum stað hefur ekki lengur nein áhrif, því að allir aðrir en hinn ritskoðaði eru undanþegnir ritskoðun.

Þegar svo er komið, geta áhugamenn um fjölmiðlun líka hætt að hafa umtalsverðar áhyggjur af, að einhver fréttastjóri sé næstum fremst í númeraröð valdastigans í þjóðfélaginu. Með núverandi dreifingu valdsins stefnir allt að minnkandi völdum hliðvarða í fjölmiðlakerfinu.

Í útlöndum er hefðbundið að tala um fjölmiðlunga sem fjórðu stéttina og þá í rauninni átt við, að þeir séu og eigi að vera utan stétta, þar með valdastétta. Það er gott, að íslenzkir fjölmiðlamenn venji sig við þá hugsun, að þeir séu utan valdakerfa og megi vera það.

Samkvæmt nýjustu tölum eru félagsmenn Blaðamannafélags Íslands orðnir 360. Allir hafa þeir hlutdeild í ábyrgð og valdi, en enginn einn getur haft umtalsverð áhrif á hugsanir þjóðarinnar. Þannig á það að vera og þannig getur fjölmiðlun smám saman öðlazt traust.

Þjóðinni er gott vegarnesti til framtíðarinnar að hafa marga fjölmiðla, sem bjóða fjölbreyttar útgáfur upplýsinga, er þjóðin getur metið eins og henni sjálfri hentar.

Jónas Kristjánsson

DV