“Stétt með stétt”?

Greinar

Til skamms tíma hrósuðum við okkur af að vera ein þjóð í einu landi. Við bárum okkur saman við erlendar þjóðir og sögðumst hafa komið á meira jafnrétti hárra og lágra en þekktist annars staðar. “Stétt með stétt” sagði þá í slagorði stærsta stjórnmálaflokksins.

Í leiðurum DV hefur nokkrum sinnum verið fjallað um fráhvarf okkar frá þessari stefnu stéttajafnaðar, nú síðast á laugardag og þriðjudag. Þetta fráhvarf er engin ímyndun, heldur má lesa það í nýbirtum greinargerðum Kjararannsóknanefndar og Þjóðhagsstofnunar.

Hjá Kjararannsóknanefnd kom fram, að stéttaskipting, mæld í kaupmætti, jókst verulega frá því í árslok 1984 fram á mitt ár 1985 og síðan aftur frá árslokum 1986 og allt til þessa dags. Góðæri þessara síðustu ára hefur algerlega farið fram hjá lágkjarafólkinu.

Hjá Þjóðhagsstofnun kom fram, að hátekjufólk er margt og hefur það mjög gott. Á þessu ári er reiknað með, að hinn bezt setti tíundi hluti launþega landsins hafi 252.000 króna mánaðarlaun á sama tíma og lágmarkslaun hafa nýlega verið hækkuð í 36.500 krónur.

Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa og það á mörgum sviðum. Hin hörðu átök á vinnumarkaðnum í vor fólu í sér örvæntingarfulla, en misheppnaða tilraun láglaunafólks, einkum í verzlun og fiskvinnslu, til að fá stefnuna leiðrétta á nýjan leik til fyrra jafnvægis.

Hin mikla þensla í fylgi Kvennalistans er einnig að hluta afsprengi ójafnaðarins, er hefur síazt inn í þjóðfélagið á síðustu árum, því að konur eru fjölmennar í þeim hópi, sem orðið hefur útundan í góðærinu. Gremja þeirra hefur magnazt um allan helming á þessu ári.

Á hvorugu sviðinu hefur láglaunafólkið sagt sitt síðasta orð. Búast má við vaxandi hörku í vinnudeilum á næstu árum. Og um síðir kemur einnig að þingkosningum, þar sem meðal annars verður kosið með og móti hinni auknu stéttaskiptingu í þjóðfélaginu.

Yfirstéttin í landinu getur auðvitað haldið áfram að láta eins og ekkert hafi gerzt. Hún getur fært gild rök að því, að flestar tilraunir til endurheimts jafnaðar hafi farið út um þúfur og sumar raunar haft þveröfug áhrif, svo sem lágmarkslaunaákvæði í kjarasamningum.

Hitt er svo jafnljóst, að sómasamlegur stéttafriður og þolanlegur vinnufriður næst ekki hér á landi, nema fundnar verði leiðir til að minnka hinn nýja lífskjaramun. Hér í blaðinu hefur verið lagt til, að þjóðin setji sér að marki að færa hann úr sjöföldu niður í fimmfalt.

Er þá miðað við, að mánaðarlaunabilið er núna frá 36.500 króna lágmarkslaunum upp í 252.000 laun þess tíunda hluta þjóðarinnar, sem hefur það bezt. Þetta er sjöfaldur munur. Ef lágmarkslaun hækkuðu úr 36.500 krónum í 55.000 krónur, minnkaði bilið í fimmfalt.

Hugsanlegt er, að Alþingi setji lög að bandarískri fyrirmynd, þar sem ákveðin séu lágmarkslaun á föstu eða lausu verðlagi, miðað við fullan vinnudag. Hér í blaðinu var á laugardaginn rökstutt, að slíkt er auðveldara í landi fullrar atvinnu en í löndum atvinnuleysis.

Einnig gætu pólitísku öflin, sem fylgja öll minnkuðum ójöfnuði, sameinazt um að láta ríkið sem vinnuveitanda ganga á undan með góðu fordæmi. Það gæti verið undirbúningsskref að lögum um almenn lágmarkslaun í landinu, að ríkið greiddi sínu fólki minnst 55.000 krónur.

Aðalatriðið er þó, að þessi vandi, sem ógnar samstöðu og samkennd þjóðarinnar, verði viðurkenndur og fái almenna og fjölbreytta umfjöllun í fjölmiðlum.

Jónas Kristjánsson

DV