Sjá ei ­ heyra ei ­ tala ei

Greinar

Samvinnumenn hafa valið kost, sem veldur þórðargleði andstæðinga Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Fulltrúar á aðalfundi Sambandsins í gær og fyrradag kusu að sjá ekki, heyra ekki og tala ekki. Vandamálin fá því að hreiðra um sig í samvinnuhreyfingunni.

“Menn sneru bökum saman”, sagði í gær á forsíðu málgagns Sambandsins. Við nánari athugun kemur í ljós, að þetta felur í sér, að fundarmenn stóðu saman um að ræða ekki mörg þeirra vandræðamála, sem samvinnuhreyfingin hefur ratað í að undanförnu.

Þetta eru kunnugleg viðbrögð. Fólk hættir oft að vera reiðubúið að ræða fjölskylduvandann, þegar hann er kominn á það stig, að um hann er fjallað úti í bæ, stundum fremur illkvittnislega. Þá er varpað gegnsærri dulu yfir ágreininginn og reynt að sýna samstöðu út á við.

Þetta er verulega athyglisvert og afdrifaríkt mál, því að samvinnuhreyfingin er að grunni til afar öflug hér á landi, þótt innviðir hennar hafi fúnað. Heildarvelta hennar nemur tæpum 90 milljörðum króna á ári, sem nemur einum fimmta hluta allrar veltu í landinu.

Segja má, að samvinnuhreyfingin eigi landbúnaðinn eins og hann leggur sig og tíu sjávarpláss í ofanálag. Í þessum tíu bæjum fer allur fiskur um hendur hreyfingarinnar. Í ellefu verstöðvum öðrum fer meirihluti aflans inn í veldi Sambands íslenzkra samvinnufélaga.

Því er afkoma heilla byggða háð getu þessarar hreyfingar til að standa sig í lífsbaráttunni. Svo virðist sem breytingar á samkeppnisskilyrðum hafi veikt Sambandið og kaupfélögin. Í fyrra tapaði hreyfingin í heild 560 milljónum króna eða meira en hálfum milljarði.

Forréttindi Sambandsins og aðildarfélaga þess hafa farið rýrnandi á undanförnum árum. Rekstur fyrirtækja byggist ekki eins mikið og áður á pólitískum ákvörðunum stjórnvalda á borð við þær að beita handafli til að halda vöxtum fjárskuldbindinga neikvæðum.

Á tímabilinu 1979­1984 breyttust útlánavextir úr því að vera neikvæðir um 15,4% í að vera jákvæðir um 4,9%. Mörgum fyrirtækjum veittist erfitt að laga sig að þessum nýju aðstæðum og kaupfélögunum sérstaklega. Í fyrra jókst fjármagnskostnaður þeirra um 600 milljónir.

Samvinnumenn eiga að vita, að hættulegt er, ef rekstur þeirra er orðinn svo háður pólitískri fyrirgreiðslu, að hann getur ekki lifað við heilbrigðar aðstæður. Það er til dæmis glæfralegt til lengdar að byggja afkomu sína á að stela sparifé landsmanna. Gæludýrin eiga bágt.

Rekstur rotnar að innan, ef hann venur sig á að geta haft að láni 800 milljónir frá bönkum án þess að leggja veð á móti eins og aðrir. Hann grotnar niður, ef hann venur sig á að geta þvingað Landsbankann til að kaupa af sér verðlausa Nígeríuvíxla fyrir 160 milljónir króna.

Ofan á peningaraunir, sem stafa meira eða minna af óhóflega löngum legum við kjötkatla þjóðfélagsins, koma svo hin siðferðilegu vandamál samvinnuhreyfingarinnar, allt frá kaffibaunamálinu yfir í meðferðina á bændum í stjórn Kaupfélags Svalbarðseyrar.

Siðblindir menn bola kaupfélagsstjóra úr stjórn fyrir að hafa aðrar skoðanir en forstjórinn á kjaramálum forstjórans. Siðblindir menn koma upp stéttaskiptingu starfsfólks, sem er í launagreiðslum töluvert umfram það, er þekkist annars staðar í þjóðfélaginu.

Aðalfundur Sambandsins aðhafðist hvorki nokkuð til að lækna siðblindu né til að gera gæludýrinu kleift að lifa af úti í hinu náttúrulega umhverfi markaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV