Glannafengið ævintýri

Greinar

Fiskeldismenn kenna stjórnvöldum um offramleiðslu laxaseiða. Þannig virðast þeir líta á ríkið sem stóra bróður. Að því leyti er hugarfar þeirra ekki hið sama og annarra framkvæmdamanna, sem hafa hliðsjón af markaði, þegar þeir hefjast handa eða stækka við sig.

Fiskeldismenn segjast fyrir löngu hafa sent landbúnaðarráðuneytingu upplýsingar um, að framleidd yrðu í ár tólf milljón laxaseiði í stað þeirra sjö milljóna, sem talið var unnt að koma í lóg. Þessum upplýsingum hafi verið stungið niður í skúffu í ráðuneytinu.

Ekki er auðvelt að skilja, að það eigi að vera mál stjórnvalda, hvort menn hagi sér skynsamlega eða óskynsamlega í einhverri atvinnugrein, nema greinin sé landbúnaður, þar sem menn hafa leyfi stjórnvalda til að offramleiða á kostnað neytenda og skattgreiðenda.

Löngum hefur verið undrunarefni áhorfenda, hvernig fiskeldi hefur getað blómstrað hér á landi, þótt flestir fiskeldismenn hafi eingöngu treyst sér til að framleiða seiði handa öðrum til fóstrunar. Hefur oftast verið treyst á, að Norðmenn keyptu afganginn af seiðum ársins.

Óráðlegt er að byggja nýja atvinnugrein á þeirri forsendu, að Norðmenn kaupi offramleiðsluna. Þeirra menn vilja sjálfir útvega seiðin, ef þeir geta, og fá áreiðanlega forgang umfram íslenzka fiskeldismenn, ef á þarf að halda. Þeir fá vernd síns landbúnaðarráðuneytis.

Einhvern tíma hljóta íslenzku seiðamilljónirnar að eiga að verða að stórum matfiski, sem fari á borð neytenda. Fáir hafa lagt út í slíka framleiðslu, enda virðast tekjur vera seinteknari í henni en í skjótræktuðum seiðum. Einnig þarf þá að hugsa dæmið alla leið til neytenda.

Tilraunir íslenzkra fiskeldismanna til útflutnings á laxi hafa gengið misjafnlega. Á fiskmarkaðinum í New York hefur íslenzkur eldislax fengið hættulegt óorð fyrir að vera linur og hreisturskemmdur. Hann hefur selzt þar á lægra verði en eldislax frá öðrum löndum.

Fiskeldismenn hafa ekki komið sér upp neinu sameiginlegu gæðakerfi til að tryggja lágmarksgæði í útflutningi. Aðeins þrjár vinnslustöðvar í landinu standast kröfur Bandaríkjamanna, en laxinn er unninn hér við frumstæðar aðstæður í tíu vinnslustöðvum öðrum.

Fiskeldismenn þurfa að gera sér grein fyrir, að erlendis er lax markaðsvara eins og annar fiskur. Þar verður að heyja baráttu við mikið framboð af laxi frá erlendum aðilum, sem hafa aflað sér nákvæmrar þekkingar á þörfum neytenda á hinum og þessum stöðum.

Hér virðast fiskeldismenn hafa hugsað eins og gert er í landbúnaðinum. Þeir hefjast bara handa með gassagangi við að framleiða seiði. Ekkert er unnt að spá um, hvort einhverjir vilji kaupa seiðin og enn síður, hvort einhverjir vilji um síðir borða fullvaxinn laxinn.

Fjárfesting í fiskeldi nemur nú 3,5 milljörðum króna hér á landi. Til að verja þessa fjárfestingu hefur ríkið ákveðið að bjarga gullæðismönnum fiskeldisins fyrir horn með því að lána þeim 800 milljónir króna til að koma offramleiðslu seiða í framhaldseldi innanlands.

Síðan má búast við árlegu upphlaupi út af erfiðleikum við að koma seiðum ársins í verð. Eftir um það bil tvö ár hefst svo nýtt árlegt upphlaup út af erfiðleikum við að koma fullvöxnum laxi ársins í verð. Eiga íslenzkir skattgreiðendur að taka allt þetta á bakið?

Senn þarf að finna skynsamleg mörk á fyrirgreiðslu þjóðarinnar við grein, sem rambar glannalega milli ævintýralegra möguleika og ævintýralegrar óráðsíu.

Jónas Kristjánsson

DV