Kerfið skiptir ekki miklu

Greinar

Aðfaraumræður forsetakosninganna um vald og stöðu forseta Íslands eru að mörgu leyti gagnlegar. Af þeim er ljóst, að túlka má stjórnarskrána á ýmsa vegu í þessu tilliti. Engan veginn er tryggt, að sú túlkun, sem farið hefur verið eftir, sé hin eina rétta og nothæfa.

Ef stjórnarskráin gerir ráð fyrir, að forsetinn sé nokkurn veginn valdalaus í pólitískum skilningi, segir hún það óneitanlega með afar óljósum og villandi orðum. Þess vegna er ekki ástæða til að vísa algerlega á bug nýjum túlkunum á valdastöðu forsetans í kerfinu.

Hins vegar er þungt á metunum, að frá upphafi hefur verið farið eftir túlkun þeirri, sem nú er í gildi. Sennilega er þorri þjóðarinnar á þeirri skoðun, að sú túlkun hafi gefizt nægilega vel til þess, að ekki sé augljós ástæða til að breyta nærri hálfrar aldar gamalli hefð.

Eðlilegt er, að mörgum finnist freistandi að hugsa til þess, að góður forseti getið bjargað þjóðinni frá slysum lélegra alþingismanna og skotið vandræðamálum til þjóðaratkvæðagreiðslu, svo að þjóðin fái sjálf að úrskurða milliliðalaust, hver skuli vera lög í landinu.

Satt að segja er þjóðaratkvæðagreiðslum allt of lítið beitt hér á landi. Gott væri til dæmis, ef kerfið gerði ráð fyrir ákveðnum kosninga-laugardegi á hverju vori. Þá mætti bera undir þjóðina ýmis mál, auk þess sem kosið væri til alþingis og byggðastjórna, þegar það á við.

Um kostnað við kosningar hefur í blöðum verið slegið fram tölum, sem ekki eru ógnvekjandi. Með árvissum kosningum og aukinni rafeindatækni við framkvæmd þeirra og talningu atkvæða má auðveldlega minnka kostnaðinn. Lýðræði þarf alls ekki að vera dýrt.

Óskir um fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur þurfa ekki að fara saman við óskir um meiri völd forseta Íslands. Ástæða er til að efast um, að hið síðara nái þeim markmiðum, sem sótzt er eftir. Breytingar leiða oftar en ekki til annarrar niðurstöðu en reiknað var með í upphafi.

Ef forsetinn hefði meiri afskipti en nú af meðferð Alþingis á pólitískum málum, má reikna með, að forsetakosningar yrðu miklu pólitískari en verið hefur. Til framboðs mundu sumpart veljast annars konar forsetaefni en valin eru nú á þeim forsendum, sem nú gilda.

Hugmyndir um þvílíkar kerfisbreytingar á landsstjórninni eru ekki nýjar af nálinni. Fyrir nokkrum árum byggði Bandalag jafnaðarmanna tilveru sína að verulegu leyti á þeirri trú, að það, sem þjóðina vantaði, væru einmitt kerfisbreytingar sem lækningatæki.

Þjóðin tók ekki þessa trú Bandalagsins. Af náttúrugreind sinni sá hún þá og sér núna, að kerfi skiptir miklu minna máli en innihald. Bretar hafa önnur lýð ræðiskerfi en Bandaríkjamenn, sem hafa önnur lýðræðiskerfi en við. Öllum þjóðunum vegnar lýðræðislega vel.

Á lýðveldishátíðinni á morgun getum við raunar fagnað gæfu okkar. Við erum í hópi örlítils minnihluta þjóða heims, sem býr við raunverulegt lýðræði. Við höfum að vísu vandamál, en þau liggja ekki í kerfum, heldur í okkur sjálfum sem sjálfstæðum borgurum.

Þrátt fyrir náttúrugreindina í þjóðfélaginu, skortir nokkuð á rökhyggjuna. Fámennið veldur því líka, að erfitt er að manna vel allar mikilvægar stöður. Innihald formsins er því oft lítið og lélegt. Mikilvægasta lækningatæki okkar ætti að vera að þjálfa rökræna hugsun.

Þótt fólk sjái vitleysur gerðar allt í kringum sig, má það ekki verða svo bergnumið af útsýninu, að það telji kerfisbreytingar einar geta orðið þjóðinni til bjargar.

Jónas Kristjánsson

DV