Sund

Frá Jökulsárbrú í Öxarfirði að Vesturdal við Hljóðakletta.

Hér hafa umsjónarmenn þjóðgarðsins við Jökulsárgljúfur gert hestamönnum gott með því að merkja reiðleið frá Ási inn í Vesturdal fjarri öllum jeppavegum. Nauðsynlegt er að hafa samband við gestastofu þjóðgarðsins við Ásbyrgi áður en farið er um þetta svæði. Netfangið er: jokulsargljufur@ust.is.

Vesturdalur er flatur dalur með þverhníptum veggjum. Þar eru tjarnir með fallegum gróðri. Nær ánni eru Hljóðaklettar, völundarhús klettaborga með skútum og hellum. Þar sunnan við eru drangarnir Karl og Kerling á eyri í gljúfrinu. Norðan Hljóðakletta eru Rauðhólar, leifar fornra eldgíga. Leiðin, sem hér er lýst, er í vesturjaðri þessa svæðis.

Förum frá Jökulsárbrú yfir brúna og vestur með þjóðvegi 85 vestur fyrir Ástjörn. Förum til suðurs af veginum vestan Ástjarnar og Áshöfða að eyðibýlinu Gilsbakka. Við fylgjum merktri reiðleið austan húsa á eyðibýlinu Hvammaseli, fyrst í vestur eftir dráttarvélaslóð og áfram suður um Mela og síðan vestur í Sund, þar sem við förum um hlið á girðingu. Síðan áfram suður um eyðibýlið Rauðhólasel og vestan við Rauðhóla og Langavatnshöfða og vestur og upp á Dettifossveg ofan við Vesturdal. Einnig er hægt að ríða einhesta inn Vesturárdal, í Svínadal og um Hólmatungur upp á veg 862 að Dettifossi vestanverðum. Þaðan eru svo leiðir upp á Mývatnsöræfi. Í Svínadal er hægt að hafa næturhólf fyrir hesta.

15,7 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Svínadalur: N65 55.000 W16 32.000.

Nálægir ferlar: Öxarfjörður, Þeistareykjabunga.
Nálægar leiðir: Dettifossvegur, Hljóðaklettar, Hólmatungur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort