Sterk stjórn í vændum

Greinar

Stundum sakna menn hinna sterku ríkisstjórna, sem þeir telja, að hafi oftar verið myndaðar fyrr á árum, þegar stjórnmálaflokkar voru færri á þingi. Eiga menn þá við tveggja flokka stjórnir, sem hafa orðið fátíðar á síðari árum og eru orðnar fegurri í fjarlægð tímans.

Umræða af þessu tagi vaknar einkum, þegar við völd er veik stjórn margra flokka eins og sú, sem nú situr. Auðvelt er að sjá, að núverandi ríkisstjórn veldur ekki hlutverki sínu og er raunar hin þyngsta byrði á þjóðinni. Ósamkomulag og hrossakaup einkenna hana.

Aðstæður eru þannig, að þjóðin gæti fengið hina svokölluðu sterku ríkisstjórn, ef gengið yrði til kosninga innan tíðar. Skoðanakannanir í vetur og vor hafa kerfisbundið leitt í ljós, að tveir stjórnmálaflokkar gnæfa í fylgi yfir aðra flokka. Þeir hafa 30% fylgi hvor um sig.

Sjaldgæft hefur verið í stjórnmálasögu landsins, að unnt væri að mynda tveggja flokka ríkisstjórn með samtals 60% fylgi að baki sér. Það getur orðið kleift eftir næstu kosningar, ef Sjálfstæðisflokkurinn og Kvennalistinn ná saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Svo sérkennilega vill til, að þessum tveimur stjórnmálaöflum svipar saman um margt. Er þá annars vegar miðað við reynsluna, sem fengizt hefur af aðild Sjálf stæðisflokksins að ríkisstjórnum, og hins vegar spáð í, hver framkvæmdin yrði á stjórnaraðild Kvennalistans.

Báðum flokkum svipar í reynd til Framsóknarflokksins. Í núverandi ríkisstjórn stendur Sjálfstæðisflokkurinn jafnan með sérhagsmunum gegn almannahagsmunum og yfirbýður jafnvel Framsóknarflokkinn í fyrirstöðu, þegar Alþýðuflokkurinn vill minnka spillingu.

Þessi aðgreining núverandi stjórnarflokka skiptir að vísu ekki miklu í raun, því að Alþýðuflokkurinn hefur lítið úthald. Ráðherrar hans láta sér nægja að þjarka um tíma út af fyrirgreiðslum á borð við þær, sem landbúnaðurinn vill fá um þessar mundir og mun fá.

Hins vegar má treysta því, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins vilja, að sérhagsmunir eins og landbúnaðarins fái sitt á hreint og þá auðvitað á kostnað almannahagsmuna eins og neytenda og skattgreiðenda. Þetta kemur fram í deilum ríkisstjórnarinnar þessa dagana.

Sjálfstæðisflokkurinn má ekkert aumt sjá í atvinnulífinu. Hann leyfði Framsóknarflokknum að gera hinn illræmda búvörusamning til fjögurra ára. Þingmenn hans eru jafnan fremstir í flokki í fyrirgreiðslum vegna staðbundinna vandamála í lélegum fyrirtækjum.

Einnig Kvennalistinn líkist Framsóknarflokknum og má ekki sjá neitt aumt í atvinnulífinu. Hann mun styðja fjárveitingar, sem ætlað er að tryggja búsetu bændakvenna í sveitinni, stöðu frystihúsakvenna við færiböndin og setu prjónakvenna við prjónavélarnar.

Kvennalistinn og Sjálfstæðisflokkurinn mundu í ríkisstjórn sameinast um stefnu Framsóknarflokksins og veita fjármagni úr arðbærum rekstri yfir í arðlausan rekstur til þess að konur geti fengið hærra kaup fyrir arðlaus störf við færibönd, prjónavélar og búskap.

Ríkisstjórn Kvennalista og Sjálfstæðisflokks gæti orðið eindræg og sterk ríkisstjórn, eins konar hæna, sem breiddi vængi sína yfir gæludýrin, og sendi síðan reikninginn til neytenda og skattgreiðenda, sem jafnan verða að borga fyrir takmarkalitla gæzku stjórnmálaflokka.

Þjóðin lítur aldrei á sig sem neytendur og skattgreiðendur og fær eftir næstu kosningar ríkisstjórn, sem hún á skilið, sterka gæzlustjórn sérhagsmuna gæludýranna.

Jónas Kristjánsson

DV