Skipulögð skuldasöfnun

Greinar

Skiljanlegt er, að ríkisstjórnin reyni að hamla gegn óskum fyrirtækja um að fá að taka ódýr lán í útlöndum í stað dýrra eða alls engra lána á innlendum markaði. Lánsumsóknirnar í viðskiptaráðuneytinu eru komnar upp í átta milljarða króna, sem er hrikaleg tala.

Ríkisstjórnin er að reyna að halda niðurstöðutölu lánsheimildanna í hálfum öðrum milljarði króna. Það er aðeins lítill hluti af heildarupphæð umsóknanna og hefur samt í för með sér hækkun erlendrar lántöku ársins úr 9,2 milljörðum króna í 10,8 milljarða.

Þótt þannig takist að halda erlendu lántökunum í nokkrum skefjum, verða erlendar skuldir þjóðarinnar komnar yfir 110 milljarða í árslok. Það jafngildir 1,7 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu, svo að notaður sé auðskiljanlegur mælikvarði.

Engin fátæktarþjóð heims er jafnskuldug við útlendinga og við erum hér á landi. Fólkið í Costa Rica, Nicaragua og Jamaica stendur okkur langt að baki. Helzt er það styrjaldarþjóðin Ísraelar, sem nálgast okkur, en hún hefur ótæmandi fjáruppsprettur í Bandaríkjunum.

Vegna mikillar þjóðarframleiðslu höfum við lengi haft betri aðstöðu en flestir aðrir til að standa undir skuldum. Sú aðstaða er þó farin að versna á nýjan leik eftir nokkurra ára stöðugleika. Í ár hækka heildarskuldirnar úr 40% af þjóðarframleiðslu ársins upp fyrir 45%.

Byrðin, sem við berum af vöxtum og afborgunum þessara miklu skulda, hefur að undanförnu numið um 16% af útflutningstekjum, en fer í ár upp í 20%. Með öðrum orðum fór sjötta hver króna útflutningstekna í rekstur skulda, en í ár fer fimmta hver króna í þá hít.

Í ljósi þessara alvarlegu staðreynda kann að koma á óvart, að mælt sé með, að stjórnvöld láti af stjórn á erlendum lántökum. En staðreyndin er þó sú, að hið opinbera skipulag, sem við búum við, kallar einmitt á meiri þrýsting á lántökur í útlöndum en góðu hófi gegnir.

Með opinberum bankaábyrgðum tekur þjóðin óbeint á sig ábyrgð af skuldum, sem fyrirtæki og stofnanir efna til í útlöndum. Ef þjóðin tæki sem heild enga ábyrgð á þessum skuldum, er líklegt, að hinir erlendu aðilar mundu aðeins lána þeim, sem þeir teldu trausta lántaka.

Þar með mundi hin meinta lánaþörf grisjast verulega. Auk þess mundu lánin ekki endurgreiðast, ef fyrirtækin færu á höfuðið. Þetta er hinn eðlilegi gangur lífsins. Skömmtunarkerfi bankaábyrgða er hins vegar dæmi um óheilbrigt ofskipulag af hálfu hins opinbera.

Í rauninni hafa stjórnmálaflokkarnir búið til sóunarkerfi, sem gerir gæludýrum þeirra í efnahagslífinu kleift að fá ódýr lán í útlöndum á ábyrgð þjóðarheildarinnar. Það kerfi þarf að afnema og gera lántakendur sjálfa ábyrga fyrir sínum lántökum. Þá mundi þörfin minnka.

Framundan er mikil dýrð gæzlumanna hinna pólitísku hagsmuna í bönkunum. Þeir fá enn eitt tækifærið til að deila og drottna. Einn bankastjórinn sagði í viðtali við DV í vikunni: “Það er náttúrlega alltaf hættan sú, að amlóðarnir verði látnir sitja fyrir.”

Í heild má segja, að árátta stjórnmálamanna við að deila og drottna hafi búið til óeðlilega mikinn þorsta í erlend lán og hlaðið upp óhóflegum skuldum þjóðarinnar í útlöndum. Hin væntanlega úthlutun leyfa upp á einn til tvo milljarða er angi af þessari spillingu.

Vandinn felst ekki í frelsi fólks til að taka lán, heldur í pólitísku valdi til að búa til ódýr lánakjör, sem skekkja jafnvægið og drekkja þjóðinni í óþarfri skuldasúpu.

Jónas Kristjánsson

DV