Sjá ekki eigin hag

Greinar

Einn helzti vandi okkar sem þjóðar er, að við erum yfirleitt ófáanleg til að líta pólitískt á okkur sem neytendur og skattgreiðendur. Fólk greiðir atkvæði á ýmsum forsendum, allt öðrum en þessum. Stundum eru hagsmunir að baki, en þá allt aðrir en þessir.

Við greiðum ekki lengur atkvæði í kosningum á grundvelli vanans. Liðin er sú tíð, að stjórnmálaviðhorf gengu í ættir og að kosningastjórar gátu nokkurn veginn nákvæmlega getið sér til um niðurstöðutölur kosninga. Núna rambar stór hluti kjósenda milli fylkinga.

Að einhverju leyti kunna hugsjónir að hafa komið í staðinn. Það er kannski helzta skýringin á lélegum árangri af pólitískri þátttöku almennings. Það er ekki gæfulegt að láta stjórnast af ýmsum hugsjónaklisjum á borð við þær, sem við lesum í leiðurum sumra blaða.

Þegar fólk trúir til dæmis, að brýnt sé, að “fullvinna” afla hér á landi, að hamla gegn “röskun” á búsetu og að búa við innlent “matvælaöryggi”á ófriðartímum, er fljótlega kominn saman eins konar fátæktar- og Framsóknarpakki í pólitískum trúarbrögðum.

Að öðru leyti hafa hagsmunir komið í stað hefðbundinna og ættgengra hugsjóna. Þeir hafa raunar alltaf staðið við hlið hugsjóna og tengst þeim mjög náið. Þannig hafa byggðahagsmunir og byggðahugsjónir runnið saman í órjúfanlega og allsráðandi heild.

Þessi heild vinnur í flestum tilvikum gegn hagsmunum þeirra, sem af hagsmunaástæðum styðja allan byggðapakkann. Íbúar Akureyrar, Ísafjarðar, Reyðarfjarðar og Vestmannaeyja eru ekki aðallega landsbyggðarfólk, heldur einnig neytendur og skattgreiðendur.

Kaupmætti íbúa þessara staða er haldið niðri eins og kaupmætti annarra Íslendinga með banni við innflutningi á þeim landbúnaðarafurðum, sem eru í samkeppni við afurðir innlends landbúnaðar. Þetta bann, sem flestir styðja, kostar alla miklar fjárhæðir.

Margfalt fleiri eru milljarðarnir, sem landsbyggðarfólk fórnar árlega á altari þeirrar sjálfsmennskustefnu í landbúnaði, er felst í innflutningsbanni, en þeir, sem það fær til baka í niðurgreiðslum. Það eru ekki bara Reykvíkingar, sem tapa á að neita sér um ódýra búvöru.

Kaupmætti íbúa Akureyrar, Ísafjarðar, Reyðarfjarðar og Vestmannaeyja er líka haldið niðri með flóknu styrktarkerfi, sem einkum beinist að landbúnaði. Þetta kerfi er stór liður hinna sameiginlegu útgjalda, sem þjóðin reiðir af hendi í síhækkandi óhófssköttum.

Margfalt fleiri eru milljarðarnir, sem landbyggðarfólk fórnar árlega í uppbætur, niðurgreiðslur og beina styrki til framkvæmda og rekstrar á sviðum, er falla undir hinar ráðandi pólitísku hugsjónir í landinu, en þeir, sem það fær hugsjónanna vegna til baka í staðinn.

Akureyringar, Ísfirðingar, Reyðfirðingar og Vestmannaeyingar eru ginntir til fylgis við gæludýrafóðrun kerfisins með því að hengja hana á almenna landsbyggðarhugsjón, sem ætlað er að hamla gegn ofurvaldi Reykjavíkur, er sögð er liggja uppi á landsbyggðinni.

Íbúar sjávarsíðunnar úti á landi eru ófáanlegir til að líta á hina yfirþyrmandi hagsmuni sína sem neytendur og skattgreiðendur, en þeim mun fúsari að gína yfir ruðunum, er þeir fá af hagsmunagæzluborði landsbyggðarstefnu, þar sem landbúnaður situr í hásæti.

Lífskjör við sjávarsíðuna munu þá fyrst taka stökk fram á við, þegar íbúar hennar átta sig á þungu vægi hagsmuna sinna sem neytendur og skattgreiðendur.

Jónas Kristjánsson

DV