Frá Fjarðarhorni í Hrútafirði að Sámsstöðum í Laxárdal.
Sölvamannagötur fóru menn af Norðurlandi að tína söl í Saurbæ. Hólamenn gerðu út stórar lestar vestur. Göturnar eru lítið farnar nú á tímum. Að ráði Njáls á Bergþórshvoli fór Gunnar á Hlíðarenda Norðurárdal og Holtavörðuheiði til Hrútafjarðar og svo Sölvamannagötur og Laxárdalsheiði til Hrúts á Höskuldsstöðum vegna Hallgerðar langbrókar. Þórður kakali reið heiðina 1238 með lið sitt á leið til Skagafjarðar að leita Kolbeins unga. Enn fór Þórður heiðina eftir yfirreið um Suðurland og Vesturland. Árið 1463 fór Einar Þorleifsson hirðstjóri um heiðina ásamt tólf öðrum. Vonzkuveður skall á og sumir örmögnuðust og urðu úti, en tveir riðu steindauðir og helfrosnir niður í Hrútafjörð. Einar sjálfur komst við illan leik til byggða.
Förum frá Fjarðarhorni beint norðvestur og upp heiðina nánast beina línu fyrir suðvestan Djúputjörn og um eyðibýlið Kvíslasel. Síðan meira til vesturs upp að þjóðvegi 59 yfir Laxárdalsheiði og fylgjum síðan þeim vegi. Til vesturs milli Sólheimabungu að sunnanverðu og Laxárvatns að norðanverðu. Áfram vestur með Laxá, framhjá Sólheimum og eyðibýlunum Pálsseli og Hólkoti að Sámsstöðum í Laxárdal.
22,6 km
Vestfirðir, Snæfellsnes-Dalir
Nálægir ferlar: Fáskrúð, Haukadalsskarð, Húnaþing.
Nálægar leiðir: Hólmavatnsheiði, Hrútafjarðará.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins