Frá Viðfjarðarvegi á Víkurheiði um Vöðlavík og Tregaskarð til Sandvíkur.
Mikið klungur og ógreiðfært efst í skarðinu. Stundum var farið aðeins austar, um Gerpisskarð, sem er hærra, um 700 metrar, en greiðfærara og fært hestum. En það er töluverður krókur.Í Vöðlavík strandaði Bergvík 18. desember 1993, en mannbjörg varð. Þremur vikum síðar, 10. janúar, strandaði björgunarskipið Goðinn við að reyna að ná Bergvík á flot. Þá fórst einn maður, en hinum var bjargað upp í þyrlu eftir níu klukkustundir í versta veðri.
Byrjum á Viðfjarðarvegi milli Reyðarfjarðar og Viðfjarðar. Förum jeppaslóð sunnan við Lönguhlíð. Hún liggur austur og niður í Vöðlavík um sæluhús á Karlsstöðum austur að Vöðlum í Vöðlavík. Þaðan förum við norður Tregadal í Tregaskarð í 600 metra hæð. Áfram norður úr skarðinu niður að Sandvíkurá og beygjum þar til norðausturs með ánni. Leiðin endar á Parti í Sandvík eða við sæluhúsið í Sandvík.
12,6 km
Austfirðir
Ekki fyrir hesta
Skálar:
Karlsstaðir: N65 01.803 W13 40.354.
Sandvík: N65 05.350 W13 33.270.
Nálægar leiðir: Viðfjörður, Sandvíkurskarð.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins